Birkir Bjarnason og félagar í Brescia eru í næstneðsta sæti ítölsku deildarinnar og máttu sætta sig við 2-1 tap á heimavelli gegn Napoli í kvöld þrátt fyrir að vera 1-0 yfir í hálfleik.
Birkir hélt sæti sínu í byrjunarliði Brescia og lék fram á 65. mínútu, framarlega á miðjunni, fyrir aftan Mario Balotelli. Jhon Chancellor kom Brescia yfir með hörkuskalla eftir hornspyrnu um miðjan fyrri hálfleik. Lorenzo Insigne náði hins vegar að jafna metin úr víti snemma í seinni hálfleik og Fabián Ruiz skoraði fallegt sigurmark á 54. mínútu.
Brescia er með 16 stig og er sjö stigum frá næsta örugga sæti, þar sem Sampdoria situr og á nú leik til góða. Napoli komst með sigrinum upp í 6. sæti og er með 36 stig.
