Jarðskjálfti að stærð 3,1 varð klukkan 20:10 í kvöld um 3,6 km norður af Reykjanestá. Nokkrir eftirskjálftar fylgdu, að því er segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Jarðskjálftahrinan við Reykjanestá heldur áfram og eru allir skjálftarnir undir 3,0 að stærð.
Dregið hefur úr landrisi á svæðinu við Grindavík en enn þá mælist aflögun. Næsti fundur vísindaráðs Almannavarna verður haldinn þriðjudaginn 25. febrúar næstkomandi.
Þá varar Veðurstofan við hellaskoðun við Eldvörp á Reykjanesskaga. Gasmælingar þar á fimmtudag sýndu lífshættuleg gildi á koltvísýringi, sem og súrefnisskort, í helli við bílastæði í grennd við vinsælar gönguleiðir.
Þann 20. febrúar hófst svo skjálftahrina um 10 kílómetra norður af Gjögurtá, sem er norður af Grenivík. Rúmlega 200 skjálftar hafa mælst á svæðinu, allir undir þremur að stærð. Engar tilkynningar hafa borist um að þeir hafi fundist í byggð. Hrinur eru algengar á þessum slóðum.