Innlent

Um 400 Ís­lendingar hafa skráð sig í veiru­gagna­grunninn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Rögnvaldur Ólafsson lögreglufulltrúi hjá Almannavörnum sitja fyrir svörum á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar í gær.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Rögnvaldur Ólafsson lögreglufulltrúi hjá Almannavörnum sitja fyrir svörum á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar í gær. Vísir/Vilhelm

Um fjögur hundruð Íslendingar sem staddir eru erlendis hafa skráð sig í gagnagrunn utanríkisráðuneytisins vegna kórónuveirunnar sem getur valdið Covid19-sjúkdómnum. Fréttablaðið greinir frá þessu í morgun en skráningarnar bárust á tæpum sólarhring.

Sveinn H. Guðmarsson upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins segir í samtali við Fréttablaðið að hin mikla þátttaka komi ráðuneytinu í raun á óvart. Þá sé ætlunin með gagnagrunninum að geta tilkynnt fólki um mikilvægar breytingar á stöðu mála er varða veiruna þar sem það er statt.

Flestar skráningarnar hafa borist frá Tenerife, þar sem fjölmargir Íslendingar dvelja á hverjum tíma. Tíu Íslendingar eru í sóttkví á Costa Adeje Palace-hótelinu eftir að hótelgestir greindust með veiruna. Þá hafa einnig borist skráningar frá Danmörku, þar sem fyrsta tilfelli veirunnar greindist í dag, Taílandi og Rúanda.

Nær öll tilfelli veirunnar sem greinst hafa í Evrópu má rekja til Ítalíu. Sóttvarnalæknir beinir þeim tilmælum til Íslendinga á skíðum á Ítalíu og víðar, sem fara um flugvelli á Norður-Ítalíu, að þeir fari í sóttkví við komuna til Íslands. Þá ræður sóttvarnalæknir Íslendingum frá ónauðsynlegum ferðum til Suður-Kóreu, Írans, Kína auk fjögurra héraða á Norður-Ítalíu. 


Tengdar fréttir

Kórónu­veiran komin til Dan­merkur

Maðurinn sem greindist með veiruna er starfsmaður dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV 2 og var nýkominn heim úr skíðaferð á Norður-Ítalíu.

Íslendingar á heimleið frá Norður-Ítalíu fari í sóttkví

Sóttvarnalæknir beinir þeim tilmælum til Íslendinga á skíðum á Ítalíu og víðar, sem fara um flugvelli á Norður-Ítalíu, fari í sóttkví við komuna til Íslands. Þetta kom fram á blaðamannafundi almannavarnadeildar síðdegis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×