Innlent

Tvö sýni reyndust neikvæð á Ísafirði

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjórðungssjúkrahúsið á ísafirði.
Fjórðungssjúkrahúsið á ísafirði. Vísir/Sammi

Fimm einstaklingar eru í sóttkví á Ísafirði og tveimur hefur verið sleppt úr einangrun vegna mögulegrar Covid-19 sýkingar. Einni einangrun var aflétt í dag eftir að sýni reyndist neikvætt og nú í kvöld lá fyrir að sá sem var eftir í einangrun hafði heldur ekki smitast af kórónuveirunni sem veldur Covid-19. Heilt yfir eru um tuttugu manns í fjórtán daga sóttkví vegna kórónuveirunnar, eins og fram kom á blaðamannafundi í dag.

Auk þeirra á Ísafirði hefur komið fram að tveir eru í sóttkví á Egilsstöðum og einn kennari í Fossvogsskóla. Allir sem vitað er um eru nýkomnir úr ferðalögum.

Sjá einnig: Um tuttugu manns í sóttkví hér á landi

Í færslu á Facebooksíðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða frá því í dag sagði að niðurstöðu úr sýnum frá seinni einstaklingnum sem var í einangrun hafi verið væntanleg í kvöld.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunarinnar, segir niðurstöðurnar hafa leitt í ljós að viðkomandi væri ekki sýktur og að einangrunin yrði því felld niður.

Þeir sem eru í sóttkví eru í svokallaðri heimasóttkví í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnalæknis. Þannig á einstaklingur í sóttkví að halda sig heima við og hafa bein samskipti við sem fæsta einstaklinga. Hann má ekki fara út af heimilinu nema brýna nauðsyn beri til og hann má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×