Viðskipti innlent

Two Birds kaupir Aurbjörgu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Two Birds, ásamt Ólafi Erni Guðmundssyni, öðrum stofnanda Aurbjargar.
Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Two Birds, ásamt Ólafi Erni Guðmundssyni, öðrum stofnanda Aurbjargar.

Fjártæknifyrirtækið Two Birds, sem hefur sérhæft sig í þróun á nýjum og notendavænum viðskiptalausnum á fasteigna- og fjármálamarkaði, hefur fest kaup á Aurbjörgu. Frá þessu er greint í tilkynningu en ekkert kemur fram um kaupverðið.

Aurbjörg aðstoðar fólk við fjármálin, sparar neytendum pening, hjálpar þeim að fræðast um fjármál og finna hagstæðustu kjörin fyrir lán, sparnað, síma, rafmagn ásamt fleiru.

„Þessi kaup á Aurbjörgu styðja við markmið okkar hjá Two Birds að auðvelda fólki að taka betri ákvarðanir þegar kemur að stórum fjármálaákvörðunum, eins og að kaupa sér þak yfir höfuðið, finna hagkvæmasta húsnæðislánið eða fara í endurfjármögnun“ segir Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Two Birds.

„Á Aurbjörgu gerir fólk samanburð á hinum ýmsu þjónustuþáttum sem snúa að heimilisrekstrinum, velur hagstæðan valkost og klárar málin með einföldum hætti.“

Mikið fagnaðarefni

„Hugmyndin við stofnun á Aurbjörgu var ávallt að aðstoða fólk við ákvarðanatöku um hvert það ætti að beina viðskiptum með einföldum samanburði á kaupum og kjörum ólíkra fyrirtækja og stofnana. Nú verður hægt að byggja enn frekar undir það verkefni og gefa einstaklingum og fyrirtækjum kost á að taka upplýsta ákvörðun. Það er því mikið fagnaðarefni fyrir okkur sem stofnuðum Aurbjörgu að sjá þetta frábæra verkefni vaxa og dafna með allri þeirri þekkingu sem liggur hjá Two Birds,“ segir Ólafur Örn Guðmundsson, annar stofnenda Aurbjargar.

Aurbjörg er fjártæknivefsíða sem fór í loftið í október 2017 og hjálpar fólki með fjármálin. Tilgangur vefsíðunnar er sagður vera sá að spara neytendum pening, hjálpa þeim að fræðast um fjármál og finna hagstæðustu kjörin fyrir lán, sparnað, kort o.fl. Samanburðirnir á Aurbjörg.is eru óháðir öðrum fjármálafyrirtækjum. Með því er verið að gæta að hagsmunum neytenda.

Two Birds var stofnað í maí 2018 og sérhæfir sig í þróun á nýjum og notendavænum viðskiptalausnum á fasteigna- og fjármálamarkaði. Two Birds býr yfir gagnasafni um fasteignamarkaðinn á Íslandi og notar gervigreind til að reikna áætlað markaðsvirði fasteigna á öllu landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×