Viðskipti innlent

Datera skiptir um framkvæmdastjóra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hreiðar Þór hefur sérhæft sig í markaðssetningu áfengra drykkja undanfarin ár.
Hreiðar Þór hefur sérhæft sig í markaðssetningu áfengra drykkja undanfarin ár. Aðsend

Stafræna birtinga- og ráðgjafafyrirtækið Datera hefur ráðið Hreiðar Þór Jónsson sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Tryggvi Freyr Elínarson, forveri Hreiðars, tekur stöðu þróunarstjóra og sérfræðings tæknilausna í stafrænni markaðssetningu að því er segir í tilkynningu.

Hreiðar er menntaður viðskiptafræðingur og starfaði sem sölu- og markaðsstjóri áfengra drykkja hjá Ölgerðinni. Þar vann hann náið með nokkrum af stærstu fyrirtækjum heims eins og PepsiCo, Diageo og Carlsberg. Áður starfaði hann hjá Coca Cola European Partners og í markaðsdeild Símans. Hreiðar hefur einnig setið í stjórn og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum hjá ÍMARK.

„Ég er afar spenntur yfir því að fá tækifæri til að vinna með mestu sérfræðingum landsins á sviði stafrænnar markaðssetningar. Gagnadrifin stafræn markaðssetning verður sífellt stærri hluti af vopnabúri markaðsstjóra og vonandi mun mín reynsla af markaðsstarfi með fjölmörg innlend og erlend vörumerki koma að góðum notum,“ segir Hreiðar.

Tryggvi Freyr er afar ánægður að fá Hreiðar til liðs við Datera.

„Hreiðar hefur ekki aðeins víðtæka reynslu af markaðsmálum heldur hefur hann skýra sýn þegar kemur að stafrænni og gagnadrifinni markaðssetningu. Framlag Hreiðars á eftir að auka enn á breiddina hjá Datera,“ segir Tryggvi.

Datera er snjallbirtingahús sem sérhæfir sig í markaðssetningu á netinu, stjórnun stafrænna gagnadrifinna herferða, uppsetningu sjálfvirkra auglýsingaherferða, leitarvélabestun og alhliða ráðgjöf á sviði stafrænnar markaðssetningar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×