Dani Pastor, þrekþjálfari Real Mallorca, hefur verið sakaður um kynþáttaníð í garð leikmanns liðsins, Japanans Takefusa Kubo.
Þegar Salva Sevilla meiddist í leik Mallorca gegn Espanyol á sunnudaginn átti Kubo að koma inn á sem varamaður.
Til að ná athygli Kubos flautaði Pastor á hann og teygði svo á augunum eins og hann væri skáeygður eins og sjá má hér fyrir neðan.
Mallorca coach accused of making racist gesture to attract attention of Japanese on-loan Real Madrid star Takefusa Kubo https://t.co/uRvfHo8Sh5
— MailOnline Sport (@MailSport) February 11, 2020
Kubo kom inn á sem varamaður á 65. mínútu. Mallorca tapaði leiknum með einu marki gegn engu. Liðið er í 18. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 18 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.
Kubo, sem er 18 ára, er á láni hjá Mallorca frá Real Madrid sem keypti hann frá FC Tokyo síðasta sumar. Hann skrifaði undir fimm ára samning við Real Madrid.