Innlent

Allt á floti í Garði og íbúar aldrei séð annað eins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Allt er á floti í Garðinum.
Allt er á floti í Garðinum. Jóhann Issi Hallgrímsson

Sjógangur í morgun hefur gert það að verkum að allt er á floti í Garðinum. Sjór gengur yfir bæinn og segist Garðsbúi til þrettán ára aldrei hafa séð annað eins.

„Það er orðið allt á floti hérna. Það er bara svo mikill sjógangur, og akkurat þessi átt, svo mikið háflóð að sjórinn gengur yfir allt,“ segir Fríða Björk Elíasdóttir í samtali við Vísi.

Hún hefur búið í Garðinum síðan í júlí 2007.

„Ég hef aldrei séð þetta áður – aldrei nokkurn tímann!“

Hún segir allt hafa verið með kyrrum kjörum í morgun. Þau hjónin hafi vaknað klukkan sex út frá veðri og látum í húsinu. Þau búa í timburhúsi svo veðrið fer ekki fram hjá þeim.

„Klukkan níu var ekkert svona sjáanlegt.“

Sjórinn flæðir yfir allt í Garði.Jóhann Issi Hallgrímsson

Klukkustund síðar hafi þau orðið vör við flóð á svæðinu sem hafi svo farið stöðugt vaxandi. Hjónin hafi farið í vettvangsferð á ellefta tímanum. Í framhaldinu hafi hún fylgst með flóði inn í hagann hjá þeim, sem hafði sloppið fram að þeim tíma.

„Þetta er búið að stigmagnast síðan frá svona tíu mínútur í tíu. Það er enn svaðalegur sjógangur og farið að rigna í þokkabót. Ég veit ekki hvernig þetta endar hjá okkur.“

Þau þakka fyrir að húsið þeirra standi nokkuð hátt svo þau efast um að vatnið komi inn í húsið hjá þeim.

„Nema það fari að koma upp úr ræsinu.“

Öldugangurinn er sömuleiðis gríðarlega mikill í Reykjanesbæ.Jóhann Issi Hallgrímsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×