Fjórir þjálfarar og aðstoðarþjálfarar sem fögnuðu bikarmeistaratitlunum tveimur í körfubolta í gær eiga að minnsta kosti eitt annað sameiginlegt. Þeir eru allir Borgfirðingar.
Skallagrímsmaðurinn Heiðar Lind Hansson bendir á þessa athyglisverðu staðreynd. Arnar Guðjónsson, aðalþjálfari karlaliðs Stjörnunnar, er úr Reykholtsdal í Borgarfirði og aðstoðarþjálfari hans, Hörður Unnsteinsson, er úr Borgarnesi.
Guðrún Ósk Ámundadóttir, sem tók við þjálfun kvennaliðs Skallagríms fyrir tímabilið, er úr Borgarnesi og fagnaði bikarmeistaratitli í fyrstu tilraun eins og Arnar með Stjörnunni í fyrra. Aðstoðarþjálfari hennar er Atli Aðalsteinsson sem er einnig úr Borgarnesi.
