Menning

Listakona segir Bíó Paradís hafa verið sér sem annað heimili

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ásdís Sif Gunnarsdóttir, listakona, er ein þeirra sem boðað hefur til fundar í Bíó Paradís klukkan sex í dag.
Ásdís Sif Gunnarsdóttir, listakona, er ein þeirra sem boðað hefur til fundar í Bíó Paradís klukkan sex í dag.

Aðdáendur Bíós Paradísar hafa boðað til fundar síðdegis til að reyna að finna leið til að koma í veg fyrir að kvikmyndahúsið loki. Listakona sem segir Bíó Paradís hennar annað heimili segir að nú þurfi fólk að taka höndum saman og standa vörð um kvikmyndahúsið.

Fyrir helgi greindi fréttastofa frá því Bíó Paradís yrði að óbreyttu lokað 1. maí næstkomandi og að öllu starfsfólki hefði verið sagt upp störfum. Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri kvikmyndahússins, sagði að reksturinn gangi vel en að leigusamningurinn hefði runnið út og að ekki hefði tekist að semja um ásættanlegt leiguverð.

Ásdís Sif Gunnarsdóttir, listakona, er ein þeirra sem hefur boðað til fundar klukkan sex í dag í Bíó Paradís. Markmiðið er að fá sem flesta á fundinn til að finna leiðir til að bjarga Bíó Paradís. Ásdís hefur sterkar taugar til kvikmyndahússins.

„Ég er vídjólistakona og performans-listamaður og ég hef gert performans í Bíó Paradís. Fyrst á Sequences hátíðinni 2005 og svo leigði ég einu sinni þrjá sali til að sýna vídjólistaverk. Ég lék í bíómynd sem var sýnd þar og hélt upp á barnaafmæli hjá dóttur minni. Þannig að þetta er búið að vera annað heimili í mörg ár,“ segir Ásdís Sif.

Tveir undirskriftarlistar eru í umferð á samfélagsmiðlum, annar hefur 1.364 undirskriftir en 1.417 hafa skrifað undir hinn og því ljóst að listabíóið í miðbænum er í hávegum haft hjá fjölmörgum og því mikið í húfi.

Aðspurð hvort hún sé vongóð um að þeim takist að bjarga bíóinu segir Ásdís: „Ég vona það en ég held að það þurfi hóp til að hafa áhrif.“


Tengdar fréttir

Leiguverðið var ekki lengur í Paradís

„Það sem er að gerast er einfaldlega það að við erum að missa húsnæðið,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíós Paradísar.

„Látum ekki hræGamma hrekja Bíó Paradís í burtu“

Óhætt er að segja að yfirvofandi lokun Bíó Paradís á Hverfisgötu eftir tíu ára starf hafi valdið miklu fjaðrafoki í dag. Framkvæmdastjóri segir reksturinn í blóma en þreföld eða fjórföld hækkun í leiguverði geri starfsemina ekki lengur mögulega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×