Erlent

Breski utan­ríkis­ráð­herrann hvetur Breta til þess að yfir­gefa Kína

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta.
Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta. vísir/getty

Dominic Raab, utanríkisráðherra, hefur hvatt Breta sem eru staddir í Kína til þess að yfirgefa landið og draga þannig úr áhættunni á því að þeir smitist af hinni svokölluðu Wuhan-veiru. Þá mælir breska utanríkisráðuneytið einnig með því að Bretum verði bannað að ferðast til Kína.

Wuhan-veiran, sem ber formlega heitið 2019-nCov, er ný tegund af kórónaveiru og á uppruna sinn í kínversku borginni Wuhan.

Alls hafa nú yfir 20 þúsund manns smitast af veirunni, flestir í Kína, en smit hafa einnig verið staðfest í fjölda nágrannaríkja sem og í Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Svíþjóð. Þá hafa yfir 400 manns látist vegna veirunnar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi vegna veirunnar.

Að því er segir í frétt Guardian eru nú um 30 þúsund Bretar í Kína. Utanríkisráðherrann hvetur þá til að yfirgefa landið ef þeir eiga þess kost en tugir Breta voru á dögunum fluttir frá Wuhan til heimalandsins. Önnur flugvél fer til Wuhan um næstu helgi til að sækja fleiri breska ríkisborgara.

Emily Thornberry, skuggautanríksiráðherra stjórnarandstöðunnar, gagnrýnir ráðleggingar utanríkisráðherrans og segir ríkisstjórnina ekki hafa brugðist nægilega vel við Wuhan-veirunni.

„Alveg síðan veiran fór að breiðast út hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar verið óreiðukennd og núna virðist hún vera að segja Bretum í Kína að bjarga sér sjálf til að komast burt frá Kína. Hvers vegna í ósköpunum er utanríkisráðuneytið ekki með áætlanir til staðar um hvernig leysa eigi svona krísur?“ sagði Thornberry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×