Lovísa Thompson skoraði 14 mörk þegar Valur sigraði HK, 23-25, í Olís-deild kvenna í dag. Aðrir leikmenn Vals skoruðu samtals ellefu mörk.
Þetta var fjórði sigur Vals í röð. Liðið er með 25 stig í 2. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Fram. HK er í 4. sætinu með 14 stig.
Þetta var fyrsti leikur HK án hinnar efnilegu Jóhönnu Margrétar Sigurðardóttur sem sleit krossband í hné í leiknum gegn Fram í Coca Cola-bikarnum á miðvikudaginn.
Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði sjö mörk fyrir HK og Kristín Guðmundsdóttir fimm.
Valur var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12-14, og sami munur var á liðunum í leikslok.
Mörk HK: Díana Kristín Sigmarsdóttir 7, Kristín Guðmundsdóttir 5, Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir 4, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 3, Tinna Sól Björgvinsdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 1, Sóley Ívarsdóttir 1.
Mörk Vals: Lovísa Thompson 14, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 3, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Auður Ester Gestsdóttir 2, Díana Dögg Magnúsdóttir 1, Hildur Björnsdóttir 1, Arna Sif Pálsdóttir 1, Íris Ásta Pétursdóttir 1.
