Íslenski boltinn

Agla María bæði með markaþrennu og stoðsendingaþrennu í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Agla María Albertsdóttir í leik með Blikum í Pepsi Max deild kvenna.
Agla María Albertsdóttir í leik með Blikum í Pepsi Max deild kvenna. Vísir/Bára

Blikastúlkan Agla María Albertsdóttir skoraði þrennu fyrir topplið Breiðabliks í 7-0 sigri á FH í Pepsi Max deild kvenna um helgina. Þetta var fyrsta markaþrenna hennar í sumar en þó ekki fyrsta þrennan.

Agla María Albertsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Breiðablik í stórsigrinum í Kaplakrika á sunnudaginn. Hún skoraði þriðja, fjórða og fimmta mark Blika í leiknum.

Eftir leikinn er Blikaliðið með fimm stiga forskot á toppnum og markatöluna 35-0.

Agla María hefur verið meira í að leggja upp mörk en að skora þau í Pepsi Max deild kvenna í sumar en tvöfaldaði markafjölda sinn í sumar með þrennunni á móti FH.

Þetta var ekki fyrsta þrennan hennar á tímabilinu því Agla María átti einnig stoðsendingaþrennu í sigrinum á Val. Agla María lagði þar upp tvö mörk fyrir Sveindísi Jane Jónsdóttur og eitt fyrir Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur.

Þær Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir hafa báðar skorað markaþrennu fyrir Blikana í sumar og bættist því Agla Marí í hóp þeirra um helgina.

Agla María Albertsdóttir hefur alls gefið 10 stoðsendingar í Pepsi Max deild kvenna í sumar og er fyrsti leikmaðurinn í bæði karla- og kvennadeildinni til að komast upp í tveggja stafa tölu í stoðsendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×