Íslenski boltinn

Hafa bara unnið FH einu sinni í tíu leikjum síðan þeir fóru með Íslandsbikarinn úr Krikanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson fagnar sigurmarki sínu á móti FH sumarið 2018. Þetta er eini deildarsigur Stjörnunnar á FH síðan í október 2014.
Hilmar Árni Halldórsson fagnar sigurmarki sínu á móti FH sumarið 2018. Þetta er eini deildarsigur Stjörnunnar á FH síðan í október 2014. Vísir/Daníel Þór

FH og Stjarnan mætast í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í kvöld en þetta er einn af leikjunum sem þurfti að fresta þegar Stjörnuliðið var sent í sóttkví.

Leikurinn hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport en engir áhorfendur verða leyfðir á leiknum.

Eftir þennan leik munu Stjörnumenn „bara“ eiga tvo leiki inni á topplið Vals en Stjarnan getur enn komist í efsta sæti deildarinnar með því að vinna alla leikina sem liðið á inni á toppliðið.

Stjarnan hefur einu sinni orðið Íslandsmeistari karla í knattspyrnu og sá titil kom í hús í Kaplakrika 4. október 2014. FH nægði þar jafntefli en Ólafur Karl Finsen tryggði Stjörnunni sigur og Íslandsmeistaratitilinn með marki úr vítaspyrnu í uppbótatíma leiksins.

Síðan eru liðin næstum því sex ár og lið FH og Stjarnan hafa alls mæst tíu sinnum í deildinni á þessum sex árum.

Það vekur því athygli að Stjörnumenn hafa bara unnið FH einu sinni í tíu leikjum síðan þeir fóru með Íslandsbikarinn úr Krikanum.

FH hefur unnið fimm af síðustu tíu deildarleikjum félaganna og fimm leikir hafa endaði með jafntefli. Markatalan er 21-11, FH-ingum í vil.

Eini sigur Stjörnunnar á FH kom á Kaplakrikavelli 2. júlí 2018. Stjarnan vann þá 3-2 sigur þökk sé tveimur mörkum frá Hilmari Árna Halldórssyni og einu frá Brynjar Gauti Guðjónsson. FH komst samt tvisvar yfir í leiknum en sigurmark Hilmars Árna kom með skoti beint úr aukaspyrnu á 88. mínútu.

Stjörnumenn hafa engu að síðustu skorað fimm mörk og náði í fjögur stig í tveimur síðustu deildarleikjum sínum í Kaplakrika. Hilmar Árni Halldórsson er með fjögur af þessum fimm mörkum og það fimmta kom eftir stoðsendingu frá honum.

Síðustu tíu deildarleikir FH og Stjörnunnar:

  • 2019
  • Í Garðabæ í ágúst: FH vann 3-1
  • Í Kaplakrika í júní: 2-2 jafntefli
  • 2018
  • Í Garðabæ í september: FH vann 1-0
  • Í Kaplakrika í júlí: Stjarnan vann 3-2
  • 2017
  • Í Garðabæ í ágúst: 1-1 jafntefli
  • Í Kaplakrika í júní: FH vann 3-0
  • 2016
  • Í Kaplakrika í ágúst: FH vann 3-2
  • Í Garðabæ í maí: 1-1 jafntefli
  • 2015
  • Í Kaplakrika í ágúst: FH vann 4-0
  • Í Garðabæ í maí: 1-1 jafntefli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×