Liverpool liðið hefur ekki tapað stigi í ensku úrvalsdeildinni í meira en hundrað daga eða síðan 20. október.
Á þessum 102 dögum frá 1-1 jafnteflinu á móti Manchester United á Old Trafford hefur Liverpool unnið fimmtán deildarleiki í röð og aukið forskot sitt úr sex stigum í nítján stig.
Það er athyglisvert að skoða yfirburði Liverpool miðað við stöðu toppliðanna í hinum stórum deildum evrópska fótboltans, nefnilega deildunum á Spáni, á Ítalíu, í Frakklandi og í Þýskalandi.
Liverpool's lead in the Premier League (19 points) is greater than the lead in the other four top European leagues combined (17 points). pic.twitter.com/XcoAwUaY38
— Squawka Football (@Squawka) January 29, 2020
Minnstur er munurinn í Þýskalandi því þar hefur RB Leipzig eins stigs forskot á Bayern München og Borussia Mönchengladbach er síðan tveimur stigum á eftir toppliðinu. Leipzig liðið hefur tapað þremur leikjum og misst af stigum í sjö leikjum.
Real Madrid er með þriggja stiga forystu á Barcelona í spænsku deildinni en Sevilla er síðan átta stigum á eftir toppliðinu í þriðja sætinu. Real Madrid hefur aðeins tapað einum leik en er búið að gera sjö jafntefli.
Juventus er með þriggja stiga forystu í ítölsku deildinni. Internazionale er næst og það eru síðan tvö stig niður í Lazio sem á leik inni á efstu tvö liðin. Juventus hefur tapað tveimur leikjum og misst af stigum í fimm leikjum.
Paris Saint Germain er með tíu stiga forystu á Olympique de Marseille í frönsku deildinni en vanalega eru úrslitin í Frakklandi ráðin löngu áður en í öðrum deildum. Nú er hins vegar meiri spenna þar en í titilbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.
Toppliðin í Þýskalandi, á Spáni, á Ítalíu og í Frakklandi eru samtals með sautján stiga forystu en Liverpool er eitt með nítján stiga forystu.