Aventura Holidays, ný ferðaskrifstofa á vegum Andra Más Ingólfssonar, fyrrum eiganda Primera Travel, mun hefja sölu á ferðum í næsta mánuði. Þetta kemur fram á vefsíðu ferðaskrifstofunnar.
Ferðamálavefurinn Túristi greindi fyrst frá þessu. Í atvinnuauglýsingu frá Aventura sem birtist í desember kom fram að ferðaskrifstofan myndi hefja rekstur í janúar. Því virðist nú hafa verið frestað, en á vef skrifstofunnar kemur ekki fram hvenær í febrúar sala komi til með að hefjast.
Á vefnum kemur fram að skrifstofan ætli sér að bjóða upp á ferðir með 600 flugfélögum, tvær milljónir hótelherbergja og „vinsælustu áfangastaðina.“
Í samtali við Vísi segir Andri Már að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvenær í febrúar rekstur muni hefjast.
„Það er að mörgu að hyggja og við viljum ekki fara af stað fyrr en allt er tilbúið,“ segir Andri Már í samtali við Vísi.
Andri Már segir þá ekki tímabært að gefa upp til hvaða áfangastaða tilvonandi viðskiptavinum Aventura muni bjóðast að ferðast. Hann boðar þó „löngu tímabæra“ nýja nálgun á íslenskan ferðamarkað og nýja möguleika fyrir íslenskra ferðalanga.
Aventura Holidays auglýsti eins og áður sagði eftir starfsfólki í lok síðasta árs. Andri Már segir að búið sé að ráða í vel flestar stöður, en verið sé að meta hvort fylla þurfi nokkrar í viðbót. Ákvörðun um það verði tekin þegar rekstur verði hafinn. Mikið af umsóknum hafi borist í kjölfar atvinnuauglýsingarinnar.
„Það var sérstaklega gleðilegt að sjá, við fengum mörg hundruð umsóknir. Við áttum ekki von á því. Viðbrögðin voru frábær,“ segir Andri.
Hann segir jafnframt að ferðaskrifstofuleyfi félagsins verði gefið út í næstu viku. Þá verði fyrirtækinu ekkert að vanbúnaði.
„Síðan förum við bara að ýta úr vör,“ segir Andri Már að lokum.
Viðskipti innlent
Andri Már boðar nýja nálgun á íslenskan ferðamarkað
Tengdar fréttir
Stofnandi Primera Air kemur á fót nýrri ferðaskrifstofu
Andri Már Ingólfsson, stofnandi flugfélagsins Primera Air, er búinn að stofna ferðaskrifstofu undir nafninu Aventura Holidays.