Erlent

Farþegaþota sögð hafa hrapað í Afganistan

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Embættismenn segja vél á vegum Ariana hafa hrapað í morgun. Flugfélagið sjálft hafnar því.
Embættismenn segja vél á vegum Ariana hafa hrapað í morgun. Flugfélagið sjálft hafnar því. Getty/Paula Bronstein

Farþegaþota á vegum Ariana, ríkisflugfélags Afganistans, er sögð hafa hrapað til jarðar skömmu eftir hádegi að staðartíma í morgun. Talið er að um 83 farþegar og áhafnarmeðlimir hafi verið um borð í vélinni sem brotlenti í Ghazni-héraði, suðvestur af höfuðborginni Kabúl.

Tildrög brotlendingarinnar liggja ekki fyrir á þessari stundu, ekki frekar en upplýsingar um manntjón. Erlendir fjölmiðlar byggja umfjallanir sínar á staðfestingu þarlendra embættismanna, en flugfélagið sjálft sendi frá sér yfirlýsingu þar sem það hafnar því að vél á þess vegum hafi hrapað. Allar þotur félagsins séu nothæfar og öruggar.

Ghazni-hérað er við rætur Hindu Kush-fjallgarðsins, þar sem veðuraðstæður geta oft verið óblíðar á þessum tíma árs. Brak vélarinnar hafnaði í hverfi sem AP og Reuters segja lúta stjórn Talíbana.

Fimmtán ár eru síðan að farþegaþota hrapaði síðast í Afganistan en stríðandi fylkingar, sem markað hafa daglegt líf í landinu undanfarna áratugi, hafa grandað ófáum herflugvélum, þotum og þyrlum. Þá fórust sjö hermenn þegar Boeing fraktflugvél á vegum Bandaríkjahers hrapaði skömmu eftir flugtak árið 2013.

Fréttin verður uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×