Símon Michael Guðjónsson skoraði sex mörk úr vinstra horninu þegar HK tapaði fyrir Íslandsmeisturum Selfoss, 29-34, í Olís-deild karla í gær.
Símon, sem er aðeins 17 ára (fæddur 2002), átti sinn besta leik í vetur í gær og skoraði sex mörk úr sjö skotum. Fyrir leikinn hafði hann skorað sjö mörk í tólf deildarleikjum á tímabilinu.
Mörk Símonar í leiknum gegn Selfossi í gær má sjá hér fyrir neðan.
Símon á ekki langt að sækja hæfileikana en bróðir hans, Sigvaldi, er landsliðs- og atvinnumaður í handbolta.
Sigvaldi, sem er fæddur 1994, er örvhentur og leikur í hægra horninu. Hann hefur leikið með Elverum í Noregi undanfarin tvö tímabil og spilað vel með liðinu í Meistaradeild Evrópu.

Frammistaða hans vakti athygli stærri félaga og Kielce í Póllandi samdi við hann og annan Íslending, Hauk Þrastarson sem skoraði ellefu mörk og gaf tíu stoðsendingar í leiknum í Kórnum í gær.
Sigvaldi lék með íslenska landsliðinu á EM í þessum mánuði. Hann skoraði 15 mörk úr 20 skotum á mótinu. Sigvaldi lék einnig með íslenska landsliðinu á HM í Danmörku og Þýskalandi í fyrra.
Systir þeirra Sigvalda og Símons, Elna Ólöf (fædd 1999), leikur einnig með kvennaliði HK. Hún hefur skorað 21 mark í 13 leikjum í Olís-deild kvenna í vetur.
