Frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Laugardalshöllinni á sunnudaginn kemur en það er árlega hluti af Reykjavík InternationalGames.
Mótið er alþjóðlegt boðsmót og það sterkasta hér á landi ár hvert þar sem fremsta frjálsíþróttafólk landsins mætir sterkum erlendum keppendum.
Einstaklingsgreinar mótsins eru hástökk, langstökk, 60 metra hlaup, 200 metra hlaup kvenna, 400 metra hlaup, 800 metra hlaup, kúluvarp og 1500 metra hlaup karla. Hlynur Andrésson mun keppa í 1500 metra hlaupi karla á mótinu.
Í langstökki og kúluvarpi verður blönduð keppni þar sem karlar og konur keppa á sama tíma.
Alls eru yfir 110 keppendur á mótinu og þar af yfir 30 erlendir keppendur frá sex löndum. Búast má við því að Íslandsmet verði í hættu og einn af hápunktum mótsins verður í lokin þegar Ísland mætir Bandaríkjunum í boðhlaupi.
Mótið fer fram frá klukkan 15.10 á sunnudaginn en aðalhluti keppninnar er á milli klukkan 15.55 og 18.00.
Mótið endar á 4 x 200 metra boðhlaupi hjá bæði körlum og konum. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir verður meðal keppanda en hún er stærsta hlaupastjarna Íslands í dag.
Ásdís Hjálmsdóttir getur ekki keppt í spjótkasti innanhúss en mun þess í stað kasta kúlunni um helgina. Kúluvarpið er önnur af tveimur greinum þar sem kynin keppa á sama tíma. Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason mun líka keppa í kúluvarpinu.
Sport