Innlent

Ekki ætlunin að Demantshringurinn verði dagsferð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Demantshringurinn er svona.
Demantshringurinn er svona. Mynd/Markaðsstofa Norðurlands

Nýtt merki Demantshringsins á Norðurlandi var kynnt á föstudaginn. Markmiðið er að laða ferðamenn að þessari ferðamannaleið allan ársins hring.

Demantshringurinn hefur lengi verið til en að undanförnu hefur mikil vinna farið í að markaðssetja hringinn, þar sem finna má nokkrar af helstu náttúruperlum Íslands á borð við Ásbyrgi, Dettifoss og Mývatn. Nýtt merki hringsins var kynnt á föstudaginn.

„Tilgangurinn er að ramma þetta inn til að við getum búið til sterkt og öflugt vörumerki og vöru fyrir þessa áfangastaði sem eru á þessu svæði,“ segir Björn H. Reynisson, verkefnaastjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands sem hefur umsjón með verkefninu.

Björn H. Reynisson er verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands.Mynd/Tryggvi Páll.

Merkið á að vera samnefnari fyrir demant og hring og geta ferðaþjónustuaðilar á svæðinu nýtt sér það og annað kynningarefni sér að kostnaðarlausu til þess að laða að ferðamenn.  Markmiðið er þó ekki að moka ferðamönnum í dagsferðir á svæðið.

„Alls ekki. Við sjáum fyrir okkur að þetta sé vara sem eigi að taka þrjá til fimm daga að gera og því að það er svo mikið í boði, það er svo mikið hægt að sjá og gera þannig að við teljum að þetta sé alls ekki dagsferð,“ segir Björn.

Helsti faratálminn á hringnum hefur verið Dettifossvegur.  Ljúka á endurbótum á honum í sumar. Heimamenn hafa mjög kvartað yfir því að vegurinn sé ekki mokaður á veturna. Óvíst er hvort það breytist næsta vetur.

„Eins og staðan er í dag já, þá verður það vandamál. Við ætlum að sjálfsögðu þegar vegurinn verður tilbúinn og malbikaður að gera kröfu um að það verði aukin tíðni á veturnar að opna og við teljum það lykilhagsmunamál á svæðinu öllu, ekki bara fyrir ferðamenn heldur fyrir alla að þessi leið verði opinn yfir veturinn.“


Tengdar fréttir

Krefjast tíðari moksturs á Dettifossvegi

Stjórn Markaðstofu Norðurland segir að þjónusta Vegagerðarinnar við Dettifossveg að vetrarlagi sé óásættanleg. Ekki sé boðlegt að vegurinn að einni helsti náttúruperlu landsins sé aðeins mokaður tvisvar sinnum á ári að vetrarlagi

Loksins komið að því að ljúka Dettifossvegi

Meira en áratug eftir að framkvæmdir hófust sér loksins fyrir endann á lagningu nýs Dettifossvegar. Tilboð í gerð síðasta áfangans hafa nú verið opnuð hjá Vegagerðinni.

Demantshringurinn virki sem segull fyrir Norðurland

Setja á aukinn kraft í að markaðssetja Demantshringinn svokallaða á Norðurlandi. Forsenda þess er að Dettifossvegur verði uppbyggður og fær öllum bílum yfir vetrartímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×