Erlent

Uppgjafarhermaður játar morð á rannsóknarblaðamanni

Kjartan Kjartansson skrifar
Marcek játaði morðið við upphaf aðalmeðferðar í dag.
Marcek játaði morðið við upphaf aðalmeðferðar í dag. Vísir/EPA

Fyrrum hermaður játaði að hann hefði verið ráðinn til að myrða Jan Kuciak, rannsóknarblaðamann, fyrir dómi í Slóvakíu í dag. Þekktur kaupsýslumaður er einnig ákærður fyrir morðið á Kuciak og unnustu hans sem átti meðal annars þátt í að stjórnarskipti urðu Slóvakíu í kjölfarið.

Morðið á Kuciak og unnustu hans, Martinu Kusnirova, í febrúar árið 2018 olli hneykslan og reiði í Slóvakíu. Þau urðu kveikjan að mótmælum sem beindust gegn spillingu og leiddu á endanum til þess að Robert Fico hraktist úr embætti forsætisráðherra.

Kuciak var þekktur rannsóknarblaðamaður sem hafði upplýst um spillingu. Þau Kusnirova voru bæði 27 ára gömul þegar þau voru skotin til bana á heimili sínu nærri höfuðborginni Bratislava.

Miroslav Marcek, 37 ára gamall uppgjafarhermaður, sagði fyrir dómi að hann hefði verið ráðinn til að myrða Kuciak. Hann hefði hvorki þekkt blaðamanninn né unnustu hans. Frændi Marcek hafi borið honum tilboð um launmorðið og keyrt hann að íbúð parsins, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Baðst Marcek afsökunar á skaðanum sem hann hefði valdið aðstandendum Kuciak og Kusnirova. Þegar hann hafi séð þjáningar þeirra í sjónvarpinu hafi hann séð sig knúinn til að gangast við glæp sínum.

Auk Marcek er Marian Kocner, þekktur kaupsýslumaður, ákærður í málinu, sakaður um að hafa fyrirskipað morðið á Kuciak. Hann neitar sök. Kuciak hafði meðal annars fjallað um viðskipti Kocner.

Tomas Szabo, frændi Marcek og fyrrverandi lögreglumaður, hefur ekki tekið afstöðu til ákæru um aðild að morðinu. Alena Zsuzsova er einnig ákærð fyrir að hafa haft milligöngu um morðið. Fimmti einstaklingurinn, Zoltan Andrusko, játaði aðild að morðinu og var dæmdur í fimmtán ára fangelsi í desember.


Tengdar fréttir

Í haldi fyrir morð Kuciaks

Dómstóll í Slóvakíu úrskurðaði fjóra í gæsluvarðhald í gær þar til mál þeirra fer fyrir dóminn, en viðkomandi eru ákærð fyrir að hafa myrt rannsóknarblaðamanninn Ján Kuciak og Martinu Kusnírová, unnustu hans, í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×