Króatískir ríkisborgarar sem búa yfir kosningarétti ganga til kjörstaðar í dag og er þar gert að velja á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem hlutu mest fylgi í fyrstu umferð kosninganna í desember síðastliðnum. AP greinir frá.
Frambjóðendurnir eru þau Kolinda Grabar-Kitarovic, núverandi forseti, og fyrrum forsætisráðherrann Zoran Milanovic. Talið er að mjótt verði á munum og virðist erfitt að spá fyrir um hver verði næsti forseti Króatíu.
Í fyrri umferðinni, sem fór fram 22.desember síðastliðinn hlaut Milanovic fleiri atkvæði en Grabar-Kitarovic spekingar segja það ekki öruggt að slíkt verði aftur uppi á teningnum í þetta skipti þar sem að stuðningsmenn Miroslav Skoro sem varð þriðji í kosningunum eru taldir líklegri til þess að flykkjast að baki sitjandi forseta en vinstri mannsins Milanovic.
Í fyrstu umferðinni hlaut Milanovic 29,55% atkvæða, Grabar-Kitarovic 26,65% og Skoro 24,45%.
