Þegar borgarbúar halda til vinnu á morgun, þrettándanum, síðasta degi jóla, mun dagsbirtan vara í 4 klukkustundir og 40 mínútur. Þetta er um 33 mínútna lenging frá vetrarsólstöðum þann 22. desember þegar dagurinn taldist vera 4 klukkustundir og 7 mínútur í Reykjavík, að því er sjá má á tímatalsvefnum timeanddate.com.
Sólris í borginni í fyrramálið, 6. janúar, er klukkan 11.13 og sólsetur klukkan 15.53. Daginn er þegar farið að lengja meira en bara um „hænufet“ á dag, lengingin í næstu viku verður 4-5 mínútur á dag og eykst síðan í yfir 6 mínútur á dag í síðari hluta janúar.
Sólin er farin að lyfta sér hærra upp. Á vetrarsólstöðum náði hún aðeins í 2,7 gráður upp á sjóndeildarhringinn, séð úr Reykjavík, en á morgun nær hún upp í 3,5 gráður klukkan 13.33. Í lok janúar fer sólarhæðin í 8,5 gráður og þá verður dagslengdin líka komin í nærri sjö klukkustundir og skammdegið að baki.
Birtubreytingin er misjöfn eftir því hvar menn eru staddir á landinu og því hraðari eftir því sem norðar dregur, þar sem dimmast var á vetrarsólstöðum. Þannig verður lengingin í Grímsey, nyrstu byggð landsins, orðin tæp klukkustund á morgun. Þar hefur daginn lengt úr 2 klukkstundum og 12 mínútum þann 22. desember í 3 klukkustundir og 10 mínútur á morgun, 6. janúar.
