Körfubolti

Ágúst: Algjört hrun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst átti erfitt með að skýra hvað gerðist hjá Valsmönnum í 4. leikhluta.
Ágúst átti erfitt með að skýra hvað gerðist hjá Valsmönnum í 4. leikhluta.

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, var ekki upplitsdjarfur eftir tap sinna manna fyrir Þór í Þorlákshöfn í kvöld.

Valsmenn voru sex stigum yfir, 51-57, fyrir 4. leikhluta. Þar hrundi leikur þeirra og Þór vann 4. leikhlutann með 23 stigum, 36-13, og leikinn, 87-70.

„Þetta var algjört hrun á síðustu mínútunum. Við spiluðum vel í 3. leikhluta og vorum sex stigum yfir eftir hann. Eftir fimm mínútur í 4. leikhluta voru þeir búnir að jafna. Þeir hittu auðvitað úr stórum skotum og sjálfstraustið jókst. Á meðan tókum við galin skot,“ sagði Ágúst í samtali við Vísi eftir leik.

Hann vildi ekki meina að sínir menn hefðu gefist upp í 4. leikhlutanum.

„Þetta var alls ekki uppgjöf. Ég veit ekki hvernig ég á að skýra þetta. Það er eins og þetta hafi verið einbeitingarskortur. Það vantaði aðeins upp á baráttu og leikgleði í 1. leikhluta en við unnum okkur inn í leikinn,“ sagði Ágúst.

„Bensínið á tanknum var lítið hjá báðum liðum undir lokin. En liðið sem varð fyrra til að ná áhlaupi var líklegt til að komast í bílstjórasætið. Þeir gerðu það og við tækluðum það mjög illa.“

Valur fékk á sig 36 stig í 4. leikhluta. Ágúst var skiljanlega ekki sáttur með varnarleik Valsmanna síðustu tíu mínútur leiksins.

„Það var nánast jafn mikið og þeir skoruðu í fyrri hálfleik og við vorum ekkert sérstaklega sáttir við vörnina í hálfleik. En það er óásættanlegt að fá á sig 36 stig í 4. leikhluta og eitthvað sem við erum mjög ósáttir við,“ sagði Ágúst að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×