Innlent

Vagnstjóri talinn ölvaður undir stýri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan stöðvaði vagninn við gatnamót Laugavegar og Katrínartúns um klukkan 10 í morgun.
Lögreglan stöðvaði vagninn við gatnamót Laugavegar og Katrínartúns um klukkan 10 í morgun. aðsend

Vagnstjóri Strætó á leið 17 var stöðvaður við Þjóðskjalasafnið í morgun vegna gruns um ölvunarakstur. Vitni sem Vísir ræddi við segir lögreglumenn hafa athafnað sig við vagninn í um hálfa klukkustund, áður en honum var að endingu ekið burt.

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir að vagnstjórinn hafi verið stöðvaður vegna gruns um að hann væri drukkinn undir stýri. Upplýsingfulltrúi Strætó, Guðmundur Heiðar Helgason, segir að bílstjórinn hafi verið látinn blása í áfengismæli og því næst fluttur á brott í lögreglubíl.

Vagnstjórinn hafði verið á ferðinni frá því klukkan 6:40 um morguninn og var að endingu stöðvaður á Laugavegi sem fyrr segir um klukkan 10. Engir farþegar voru í vagninum þá stundina.

Guðmundur segir að vagnstjórinn eigi ekki afturkvæmt í starf sitt ef grunur lögreglu reynist réttur. Hann væri með ölvunarakstri ekki aðeins að stofna sjálfum sér í hættu heldur jafnframt viðskiptavinum Strætó og nærumhverfi sínu. Fregnirnar séu áfall en sem betur fer séu atvik sem þessi ekki algeng. Talið er að samstarfsfólk vagnstjórans hafi tilkynnt hann til lögreglu eftir samskipti við hann á Hlemmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×