Erlent

Smituðum fjölgar áfram hratt í heiminum

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn að störfum á Indlandi.
Heilbrigðisstarfsmenn að störfum á Indlandi. AP/Rafiq Maqbool

Heildarfjöldi þeirra sem vitað er að smitast hafa af Covid-19 er kominn yfir 20 milljónir. Nánar tiltekið hafa 20.138.860 smitast, þegar þetta er skrifað og samkvæmt talningu Johns Hopkins háskólans. Minnst 737.520 hafa dáið.

Af þeim sem vitað er að hafa smitast eru langflestir í Bandaríkjunum eða 5,1 milljón. Í Brasilíu hafa rúmlega þrjár milljónir smitast og 2,2 milljónir á Indlandi.

Frá því heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19, hófst smituðust tíu milljónir á sex mánuðum. Frá því tók einungis sex vikur að ná í 20 milljónir.

Samkvæmt AP fréttaveitunni telja sérfræðingar að raunverulegur fjöldi smitaðra sé mun hærri. Sérstaklega með tilliti til takmarkaðar skimunar víða um heim og þess að allt að 40 prósent smitaðra sýni ekki einkenni.

Þá eru sömuleiðis vísbendingar um að raunverulegur fjöldi látinna gæti verið hærri en opinberar tölur segja til um.

Ríki Evrópu virðast að mestu hafa náð tökum á faraldrinum en með tilslökunum á ferðatakmörkunum og smitvörnum tók smituðum að fjölga víða á nýjan leik. Jean Castex, nýr forsætisráðherra Frakklands, varaði við því í dag að mögulega yrði erfitt að stöðva útbreiðsluna sem á sér stað þar í landi um þessar mundir.

Castex sagði almenning vera orðinn kærulausan og allir þyrftu að taka höndum saman.

Í dag var tilkynnt að smituðum hefði fjölgað um 1.397 á milli daga, sem er tvöfalt fleiri en degi áður. Í heildina hafa 239.355 smitast, samkvæmt opinberum tölum, og 30.327 hafa dáið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×