Innlent

Búið að af­lýsa Akur­eyrar­vöku

Atli Ísleifsson skrifar
Til stóð að halda Akureyrarvöku þann 29. ágúst.
Til stóð að halda Akureyrarvöku þann 29. ágúst. Akureyrarbær

Það verður engin Akureyrarvaka í ár. Er það ákvörðun Akureyrarbæjar að aflýsa Akureyrarvöku sem að þessu sinni var fyrirhuguð á afmæli bæjarins þann 29. ágúst.

Í tilkynningu frá bænum segir að ákvörðunin sé tekin til að sýna ábyrgð í verki, bregðast við tilmælum sóttvarnalæknis og þróun Covid-19 faraldursins í samfélaginu, líkt og það er orðað.

„Þetta þýðir að allir stærri og minni viðburðir sem fyrirhugaðir voru falla niður. Það er Akureyrarstofa sem annast skipulag Akureyrarvöku og þar á bæ er unnið að því að minnast afmælis bæjarins með uppákomum sem taka fullt tillit til fjöldatakmarkana og fjarlægðarmarka. Stefnt er að því meðal annars að lýsa upp svæði og byggingar í bænum, gangandi og akandi bæjarbúum og gestum til yndisauka.

Þannig verður Lystigarðurinn lýstur upp og skreyttur eins og undanfarin ár og áætlað að ljósin fái að lifa þar út septembermánuð,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×