Það hefur verið í nægu að snúast hjá vallarstjóra Laugardalsvallar, Kristni V. Jóhannssyni, á árinu. Fyrst var sett upp hitatjald í kringum fyrirhugaðan leik Íslands og Rúmeníu og nú er verið að leggja vökvunarkerfi í völlinn.
Eins og Vísir greindi frá í síðustu viku er verið að leggja vökvunarkerfi í völlinn og má því sjá holur í vellinum er einungis mánuður er þangað til enska landsliðið kemur hingað í heimsókn í Þjóðadeildinni.
„Nú var bara kominn tími á þetta og fengum já frá borginni. Við byrjuðum fyrir viku og klárum eftir smá,“ sagði Kristinn.
„Þetta er ekkert svakalegt rask á vellinum. Þetta eru nokkrir skurðir, pípur og tengja saman og kveikja. Þetta er heljarinnar vinna og þegar góðir aðilar vinna að þessu þá gengur þetta.“
Hann segir að ef það verði skipt um völl verði hægt að taka kerfið með en hann segir að þetta auki öll gæði vallarins.
„Við erum að setja þetta til þess að auka gæði vallarins og að hann verði betri. Ef einhvern tímann verður skipt um völl þá getum við tekið þetta upp og nýtt það í nýjan völl.“
„Þetta er hefðbundið vökvunarkerfi sem er á flestum völlum í heiminum og við erum búnir að bíða lengi eftir þessu.“
„Þetta hjálpar okkur mikið að halda vellinum flottum og líka varðandi leiki og æfingar, að hann verði betri fyrir leikmenn og spilaður skemmtilegri fótbolti,“ sagði Kristinn.