Innlent

Um 150 eftirskjálftar fylgdu skjálftanum sem reið yfir norður af landinu í nótt: Íbúi segir erfitt að venjast skjálftum á svæðinu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Siglufjörður.
Siglufjörður.

Um 150 smáskjálftar hafa fylgt jarðskjálfta af stærðinni 4,6 sem reið yfir norður af landinu um þrjú leytið í nótt. Íbúi á Siglufirði segir erfitt að venjast skjálftum á svæðinu.

Skjálfti að stærðinni 4,6 varð um ellefu kílómetra norðvestur af Gjögurtá klukkan 3:42 í nótt. Tíu mínútum síðar varð annar skjálfti á svipuðum slóðum 3,7 að stærð. Geirþrúður Ármannsdóttir er náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

„Við höfum fengið tilkynningar víða á Tröllaskaga og í Eyjafirði um að þessi stóri hafi fundist og síðan þá eru komnir um það bil 150 jarðskjálftar á þessu svæði,“ sagði Geirþrúður.

Þeir séu flestir smáskjálftar.

„Við fáum svona hrinur annað slagið og það er yfirleitt talsverð virkni úti fyrir norðurlandi og það eru annað slagið hrynur út frá Gjögurtá og það kom þarna í júní en síðan um 20 júní eru um tíu skjálftar sem hafa verið á þessu svæði sem eru um og yfir 4 á stærð,“ sagði Geirþrúður.

Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði vaknaði við skjálftann í nótt.

Róbert Guðfinnsson fann vel fyrir skjálftanum í nótt.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.

„Þetta var svolítið högg en menn hafa fengið nokkur svona högg áður í vetur og þetta er eitthvað sem menn verða að lifa við,“ sagði Róbert.

Hann segist ekki hafa orðið var við neitt tjón á svæðinu.

„Ég hef ekki heyrt af neinum ótta en að sjálfsögðu bregður fólki, þetta er eitthvað sem maður venst ekki en menn læra að lifa með þessu,“ sagði hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×