Innlent

Skjálfti 4,6 að stærð norður af landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Siglufirði. Tilkynningar hafa borist um að skjálftarnir hafi fundist víða á Tröllaskaga og í Eyjafirði.
Frá Siglufirði. Tilkynningar hafa borist um að skjálftarnir hafi fundist víða á Tröllaskaga og í Eyjafirði. Vísir/Vilhelm

Skjálfti 4,6 að stærð varð um ellefu kílómetrum norðvestur af Gjögurtá klukkan 3:42 í nótt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni. Þar segir að tíu mínútum síðar, eða klukkan 3:52, hafi orðið annar skjálfti á svipuðum slóðum, 3,7 að stærð.

„Tilkynningar hafa borist um að skjálftarnir hafi fundist víða á Tröllaskaga og í Eyjafirði. Rúmlega 40 smáskjálftar hafa fylgt í kjölfarið.

Þetta er stærsti skjálfti á svæðinu frá 19. júlí, en þá varð skjálfti af stærðinni 4,4.

Skjálftavirkni hefur verið viðvarandi á þessu svæði frá því í júní og eru þessi skjálftar hluti af þeirri virkni,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×