Innlent

Þrjátíu í sótt­kví á Akureyri eftir að sjúkraþjálfari smitaðist

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Akureyri.
Frá Akureyri. Vísir/vilhelm

Sjúkraþjálfari hjá sjúkraþjálfunarstöðinni Stíg á Akureyri greindist með Covid-19 á laugardag. Í kjölfarið voru þrjátíu skjólstæðingar hans sendir í sóttkví. Þetta staðfestir Þuríður Sólveig Árnadóttir eigandi Stígs í samtali við Vísi en RÚV greindi fyrst frá málinu í dag.

Þuríður segir að sjúkraþjálfarinn sem greindist með Covid hafi verið sá eini í starfsliðinu sem ekki var í sumarfríi. Sem betur fer bjóði kerfi stofunnar upp á það að strax var hægt að sjá hverjir hefðu verið í meðferð hjá umræddum sjúkraþjálfara. Skjólstæðingarnir, þrjátíu talsins, hafi því verið settir í sóttkví og smitrakning nú í gangi.

Þuríður segir að sjúkraþjálfarinn viti ekki hvar hann smitaðist. Þá viti hún ekki til þess að nokkur skjólstæðingur hafi fengið einkenni Covid. Stígur verður lokaður næstu vikuna hið minnsta vegna sumarleyfa en starfsemi hefst að nýju að þeim loknum. „Og allt í góðum málum og samkvæmt reglum,“ segir Þuríður.

Tveir eru í einangrun með Covid-19 og þrjátíu og fimm í sóttkví á Norðurlandi eystra. Fyrst greindist erlendur ferðamaður með kórónuveiruna á föstudag og hann dvelur í farsóttarhúsi á Akureyri með fjölskyldu sinni, sem þó er ekki með veiruna. Sjúkraþjálfarinn greindist með veiruna á laugardag, líkt og áður segir.

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×