Sport

Ingvar Íslandsmeistari á Akureyri degi eftir að hafa hjólað frá Siglufirði

Sindri Sverrisson skrifar
Keppendur tókust á við ýmsar áskoranir í Kjarnaskógi í gær.
Keppendur tókust á við ýmsar áskoranir í Kjarnaskógi í gær.

Ingvar Ómarsson varð sjöunda árið í röð Íslandsmeistari í ólympískum fjallahjólreiðum á Akureyri í gærkvöld.

Keppt var á fjögurra kílómetra langri braut í Kjarnaskógi með úrvali af hindrunum og köflum sem reyndu á tækni keppenda. Karlarnir hjóluðu fimm hringi en konurnar fjórar.

Hafsteinn Ægir Geirsson, ólympíufari í siglingum frá því í byrjun þessarar aldar, veitti Ingvari mesta keppni í gærkvöld. Ingvar náði forskoti í bröttu og tæknilegu klifri á öðrum hring og kom á endanum í mark á klukkutíma og 24 sekúndum, eða 42 sekúndum á undan Hafsteini. Kristinn Jónsson varð þriðji.

Ingvar hafði sólarhring áður tryggt sér bikarmeistaratitilinn í götuhjólreiðum með því að hjóla hraðast allra frá Siglufirði til Akureyrar.

Í kvennaflokki fjallahjólreiðanna voru aðeins tveir keppendur, þær María Ögn Guðmundsdóttir og Elín Björg Björnsdóttir. María vann öruggan sigur á 1:01:42 klukkustund, eða 5 mínútum og 39 sekúndum á undan Elínu, eftir að þær höfðu verið hnífjafnar að loknum fyrsta hring.

Svipmyndir frá mótinu má sjá hér að neðan.

Klippa: Íslandsmeistaramót í fjallahjólreiðum

Úrslit karla

Úrslit kvenna


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×