Jason Daði Svanþórsson hefur samið við Breiðablik. Hann klárar tímabilið með Aftureldingu í Lengjudeildinni og færir sig svo yfir í Kópavoginn. Þetta kemur fram á Blikar.is.
Hjá Blikum hittir hann fyrir tvo sveitunga sína, Róbert Orra Þorkelsson og Anton Ara Einarsson.
Jason, sem verður 21 árs á gamlársdag, hefur leikið með Aftureldingu allan sinn feril. Á þessu tímabili hefur hann skorað fjögur mörk í sjö leikjum í Lengjudeildinni og fimm mörk í tveimur leikjum í Mjólkurbikarnum.
Tveir af bestu ungu leikmönnum Aftureldingar leika því með Breiðabliki á næsta tímabili. Áðurnefndur Róbert Orri er aðeins átján ára og hefur leikið með yngri landsliðum Íslands.
Breiðablik er í 4. sæti Pepsi Max-deildar karla með ellefu stig eftir sjö leiki. Liðið sækir HK heim í Kórinn klukkan 20:15 í kvöld.