Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það ánægjulegt að Icelandair og Flugfreyjufélag Íslands hafi náð saman og ritað undir nýjan kjarasamning hjá ríkissáttasemjara í nótt. Mikilvægt sé að leysa mál sem þetta með samningum. Hún segir rökin fyrir því að Icelandair fái ríkisábyrgð sé að félagið hafi höfuðstöðvar hér á landi og sé með íslenska kjarasamninga.
„Þetta eru auðvitað ánægjulegar lyktir í þessu og auðvitað er það við samningaborðið sem á að leysa slík mál. Það var mjög mikilvægt að ríkissáttasemjari boðaði til þessa fundar í gær og að deilendur skyldu ákveða að setjast niður og gera þessa úrslitatilraun,“ sagði Katrín í samtali við fréttastofu í dag.
Hún segir afar gott að náðst hafi saman í deilunni, en á föstudag tilkynnti Icelandair um að félagið hygðist slíta viðræðum við Flugfreyjufélagið og að flugfreyjum og þjónum félagsins yrði sagt upp. Með undirritun kjarasamnings í gær voru þær uppsagnir dregnar til baka.
„Það er gott að þarna náðist saman, því það er auðvitað þarna sem á að leysa málin. Með frjálsum samningum þar sem aðilar ná saman.“
Morgunblaðið greinir jafnframt frá því að Katrín hafi verið í samskiptum við Aðalstein Leifsson ríkissáttasemjara vegna málsins. Það hafi þó verið ríkissáttasemjara, en ekki hennar, að boða aðila á fund í deilunni.
Mikilvægur áfangi fyrir Icelandair
Katrín segir jafnframt að svo virðist sem samningurinn, sem kynntur verður fyrir félagsmönnum FFÍ á mánudag, sé mikilvægur liður í þeirri vegferð sem Icelandair er á. Félagið hyggur á hlutafjárútboð í næsta mánuði.
„Ég ímynda mér að þetta sé mikilvægur áfangi fyrir félagið, að geta haldið áfram í sínu verkefni, sem er auðvitað að undirbúa hlutafjárútboð og tryggja það að bæði hluthafar og lánadrottnar komi að því verkefni að leggja félaginu til [fé].“
Þá segir hún stjórnvöld hafa lagt áherslu á að Icelandair héldi starfsemi sinni og kjarasamningum hérlendis.
„Við höfum auðvitað lagt á það áherslu, stjórnvöld, allan tímann að það sé mikilvægt að ef ríkið eigi að koma að með sína ábyrgð að þá annars vegar takist vel upp í hlutafjárútboði og rökin fyrir því séu að hér sé einmitt félag með höfuðstöðvar á Íslandi og með íslenska kjarasamninga,“ segir forsætisráðherrann. Ánægjulegt sé að málinu sé lokið, en það hafi verið erfitt.
„ Þetta mál fór auðvitað í mjög harðan hnút og ég vil bara ítreka það að sá lærdómur sem við getum dregið af þessu er hversu mikilvægt það er að fólk útkljái svona mál við samningaborðið.“