Fundur samninganefnda Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands stendur enn yfir í húsnæði ríkissáttasemjara í Borgartúni, nú þegar klukkan er tekin að ganga eitt, aðfaranótt sunnudags.
Nefndirnar hafa fundað frá því snemma í gærkvöldi, laugardag. Kjaraviðræður Icelandair og FFÍ hafa staðið yfir í þó nokkurn tíma, en í gær tilkynnti Icelandair að félagið hefði slitið viðræðunum og að flugliðum hjá félaginu yrði sagt upp.
Kvaðst félagið ætla að róa á önnur mið til þess að manna stöður öryggis- og þjónustuliða, en í millitíðinni munu flugmenn félagsins sinna starfi öryggisliða um borð.
Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar félagsins virðist ekki öll von úti um að samningar náist milli aðila. Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari flaug í dag frá Ísafirði til Reykjavíkur til þess að vera viðstaddur viðræðurnar, að því er fram kemur á vef mbl.is. Nokkur leynd hefur ríkt yfir fundinum.
Fréttin hefur verið uppfærð.