Innlent

Ákvörðun Icelandair lögleg að mati sérfræðings í vinnurétti

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Mikil umræða hefur skapast meðal verkalýðshreyfingarinnar vegna ákvörðunar Icelandair. Lögmaður ASÍ segir ákvörðunina brjóta gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Sérfræðingur í vinnurétti segir það langsótt.

„Mér finnst þetta svolítið langsótt að flokka þetta undir þá ákvörðun vegna þess að mér sýnist þessi ákvörðun hjá Ielandair vera einhvers konar neyðarréttarleg ákvörðun. Að ef þeir geri þetta ekki þá horfi þeir fram á slíkt fjárhagslegt tjón að það valdi gjaldþroti,“ sagði Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti.

Ákvörðun atvinnurekandans sé í fljótu bragði ekki þess eðlis að hafa áhrif á vinnudeilur.

Lára V. Júlíusdóttir er hæstaréttarlögmaður.AÐSEND

„Hann getur ekki haft starfsmann í starfi á þessum kjörum og því er honum sú leið ein fær önnur en að lýsa til gjaldþrota,“ sagði Lára.

Hún segir að forgangsákvæði kjarasamnings Flugfreyjufélagsins og Icelandair sem rann út árið 2018 gæti komið í veg fyrir að Icelandair geti samið við annan aðila en Flugfreyjufélagið.

„Þetta þýðir það að atvinnurekandi má ekki ráða aðra til starfsins en hann verður að láta félagsmenn í Flugfreyjufélaginu ganga fyrir. Þetta forgangsréttarákvæði virkar þannig að á meðan það er í gildi þá geta samtök atvinnulífsins ekki gert samning við eitthvert annað félag um þessi sömu störf.“

„Ef Flugfreyjufélagið er ekki til viðræðna lengur þá er það spurning hvort að Icelandair sé bundið þessum forgangsréttarákvæðum,“ sagði Lára.


Tengdar fréttir

Flug­freyjur boða alls­herjar­verk­fall

Atkvæðagreiðsla um boðun vinnustöðvunar flugfreyja hefst klukkan 10 að morgni 24. júlí næstkomandi og mun henni ljúka klukkan 12 á hádegi þann 27. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×