Erlent

Krefjast afsagnar ríkisstjórnar Búlgaríu vegna spillingarmála

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum gegn ríkisstjórn Búlgaríu í höfuðborginni Sofíu í gær, 14. júlí 2020.
Frá mótmælum gegn ríkisstjórn Búlgaríu í höfuðborginni Sofíu í gær, 14. júlí 2020. Vísir/EPA

Forsætisráðherra Búlgaríu segist ætla að ákveða hvort hann haldi áfram í embætti síðar í þessari viku. Stjórnarandstaðan hefur lagt fram vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni í skugga mótmæla gegn spillingu sem geisa víða um landið.

Þúsundir Búlgara hafa krafist afsagnar Boyko Borissov forsætisráðherra, ríkisstjórnar hans og ríkissaksóknara vegna fjölda fjármálaspillingarmála hátt settra embættismanna sem hafa auðgað valdamikla auðjöfra á kostnað opinberra stofnana, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Borissov, sem hefur verið við völd nær sleitulaust frá 2009, segist ætla að ákveða hvort hann sitji áfram eftir að hann snýr aftur heim eftir leiðtogafund Evrópusambandsins síðar í vikunni. Hann varar við því að Búlgaría þurfi að búa sig undir afleiðingar efnahagskreppu vegna kórónuveiruheimsfaraldursins.

Litlar líkur eru taldar á því að vantrauststillaga sem stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins hefur lagt fram á þingi verði samþykkt. Greidd verða atkvæði um hana í næstu viku. Þetta er fimmta vantrauststillagan á hendur miðhægristjórnar Borissov.

Búlgaríu er fátækasta aðildarríki Evrópusambandsins og er talið það spilltasta. Enginn háttsettur embættismaður hefur þó verið fangelsaður fyrir spillingu. Frekari mótmæli gegn spillingu hafa verið boðuð í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×