Bæjarstjórn Akureyrar mótmælir harðlega ákvörðun Fangelsismálastofnunar að loka fangelsinu á Akureyri. Í tilkynningu frá bæjarstjórn kemur fram að ekkert samráð hafi átt sér stað við bæjaryfirvöld eða aðrar sveitastjórnir á svæðinu.
Tilkynnt var um lokun fangelsisins á mánudaginn og segir þar að með lokun fangelsisins verði hægt að nýta betur þá fjármuni sem renna til fangelsismála. Þá segir að kostnaður við hvert fangapláss á Litla-Hrauni og Hólmsheiði sé mun lægri en á Akureyri vegna samlegðaráhrifa við önnur fangelsi.
Dómsmálaráðuneytið telur ávinninginn af lokun fangelsisins margþættan: boðunarlisti og fyrningar refsinga geti lækkað auk þess sem nýting á afpánunarrýmum verði betri. Um átta til tíu fangar eru vistaðir að jafnan í fangelsinu Á Akureyri sem er í sama húsnæði og embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Fimm starfsmenn eru fastráðnir í fangelsinu á Akureyri en að sögn Fangelsismálastofnunar verður þeim boðið starf í fangelsum ríkisins. Bæjarstjórn Akureyrar telur alvarlegt að leggja eigi niður fimm störf í bænum en jafnan muni lögreglumenn á vakt nú þurfa að sinna fangavörslu þegar ákvörðunin tekur gildi. Frá og með næstu mánaðamótum þurfi því tveir til fimm lögreglumenn á vakt að sinna fangavörslu.
„Þessi ákvörðun mun því að óbreyttu kalla á stóraukið fjármagn til löggæslu á Norðurlandi eystra en að öðrum kosti skerðist löggæsla á svæðinu svo um munar,“ segir í tilkynningu frá bæjarstjórn Akureyrar. Þá kemur jafnan fram að fangaverðir á vegum Fangelsismálastofnunar hafi hingað til einnig sinnt föngum sem gista í fangageymslum lögreglunnar vegna rannsóknar mála, ölvunar eða af ýmsum öðrum ástæðum.
„Bæjarstjórn Akureyrar telur með öllu ólíðandi að Fangelsismálastofnun geti í trássi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda í byggðamálum og án samráðs við sveitarstjórnir á svæðinu tekið slíka ákvörðun um að flytja fimm störf af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið og þar með sett löggæslu á stóru svæði landsins í algjört uppnám.“