Erlent

Fleiri saka Ep­stein um mis­notkun í kjöl­far hand­töku Maxwell

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Epstein og Maxwell.
Epstein og Maxwell. Joe Schildhorn/Getty

Fleiri hafa nú stigið fram og ásakað barnaníðinginn Jeffrey Epstein um að hafa brotið á sér. Ásakanirnar líta dagsins ljós í kjölfar þess að Ghislaine Maxwell, sem var nátengd Epstein áður en hann fyrirfór sér í fangaklefa sínum í ágúst í fyrra, var handtekin. Er hún grunuð um að hafa hjálpað Epstein að finna ungar konur og stúlkur til þess að misnota kynferðislega.

Frá þessu er greint í Guardian. Gert er ráð fyrir að Maxwell komi fyrir dómara á föstudag, en þá verður ákveðið hvort hún muni eiga þess kost að losna úr varðhaldi gegn tryggingu. Maxwell hefur sjálf hafnað öllum ásökunum á hendur sér.

Gloria Allred, lögmaður 16 kvenna sem áður hafa sakað Epstein um kynferðislega misnotkun, segir að fleiri konur hafi nú ákveðið að leita réttar síns vegna meintra brota Epstein gegn sér.

„Nú eru fleiri fórnarlömb að hafa samband við mig, en þau hafa ekki stigið fram og sagt neinum frá nema mér, og mögulega skyldmennum sínum. Ég er með skjólstæðinga frá Evrópu og Bretlandi sem hafa haft samband og vilja fá bætur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×