Erlent

Í­halds­flokkurinn HDZ vann sigur í Króatíu

Atli Ísleifsson skrifar
Andrej Plenkovic hefur gegnt embætti forsætisráðherra Króatíu frá árinu 2016.
Andrej Plenkovic hefur gegnt embætti forsætisráðherra Króatíu frá árinu 2016. Getty

Andrej Plenkovic, forsætisráðherra Króatíu, og íhaldsflokkur hans, HDZ, hafa fengið umboð til að mynda nýja ríkisstjórn eftir að flokkurinn vann sigur í þingkosningunum sem fram fóru í landinu í gær.

HDZ hefur verið ráðandi afl í stjórnmálum landsins í þau tæplega þrjátíu ár sem liðin eru frá sjálfstæði. Þegar búið var að telja um 90 prósent atkvæða var HDZ með 68 þingsæti af því 151 sem eru á þinginu.

Jafnaðarmannaflokkurinn SPD hlaut næstflest atkvæði og 42 þingsæti, en þar á eftir var hægriöfgaflokkurinn DPMS sem fær fimmtán þingsæti.

Fréttaskýrendur segja HDZ nú í þægilegri stöðu þar sem þeir geta nú valið um samstarfsflokka og þurfa því ekki að treysta á stuðning flokka yst á hægrivængnum.

Plenkovic og stjórn hans hefur verið hrósað vegna viðbragða við heimsfaraldrinum, en alls hafa um þrjú þúsund smit verið skráð í landinu og hafa um hundrað dauðsföll verið rakin til Covid-19. Í landinu búa 4,2 milljónir manna.

Davor Bernardic, leiðtogi SPD, greindi frá því í gærkvöld að hann myndi segja af sér formennsku og óskaði hann jafnframt Plenkovic og HDZ til hamingju með sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×