Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - Víkingur 2-0 | Víkingar sáu þrjú rauð í tapi á Meistaravöllum Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 4. júlí 2020 20:12 Kári Árnason fékk rautt spjald gegn KR líkt og þeir Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson. vísir/hag Víkingar fengu þrjú rauð spjöld þegar þeir töpuðu fyrir KR-ingum, 2-0, í leik Íslands- og bikarmeistaranna á Meistaravöllum í 4. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Kristján Flóki Finnbogason og Pablo Punyed skoruðu mörk KR. Allir þrír miðverðir Víkings sem byrjuðu leikinn voru reknir af velli. Kári Árnason fékk rautt spjald í fyrri hálfleik og í þeim seinni fuku Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson einnig af velli. KR-ingar spiluðu ekki vel í leiknum í kvöld en gerðu nógu mikið til að vinna. KR hefur unnið tvo leiki í röð og er á toppi deildarinnar ásamt Breiðabliki. Víkingur er í 8. sætinu með fimm stig. Kristján Flóki fékk ágætis færi strax á 3. mínútu en annars voru Víkingar sprækari í upphafi leiks. Ágúst Eðvald Hlynsson fékk besta færi gestanna en skaut yfir. Kaflaskil urðu 26. mínútu þegar Kári var rekinn af velli fyrir brot á Kristjáni Flóka sem var að sleppa í gegn. Víkingar vörðust vel það eftir lifði fyrri hálfleiks. Óskar Örn fékk reyndar gott færi skömmu eftir rauða spjaldið en Þórður Ingason, sem stóð í marki Víkings í fjarveru Ingvars Jónssonar, varði vel. Þórður tefldi oft á tæpasta vað með boltann en komst vel frá sínu og átti góðar markvörslur, sérstaklega undir lokin þegar Víkingar voru fáliðaðir. Staðan var markalaus í hálfleik og allt fram á 58. mínútu þegar Kristján Flóki braut ísinn. Atli Sigurjónsson átti þá fyrirgjöf frá hægri, og með hægri fæti, á Kristján Flóka sem tók boltann í fyrsta og kláraði færið með stæl. Víkingar urðu fyrir enn einu áfallinu á 74. mínútu þegar Sölvi Geir var rekinn af velli fyrir að slá Stefán Árna Geirsson. Gestirnir voru afar ósáttir við rauða spjaldið og töldu að Pablo hefði hrint Sölva Geir. Þrátt fyrir að vera tveimur færri gáfust Víkingar ekki upp og Óttar Magnús Karlsson fékk ágætis færi en skaut framhjá. Skömmu síðar fór þriðja rauða spjaldið á loft. Það fékk Halldór Smári fyrir harða tæklingu á Kennie Chopart sem þurfti að fara af velli. Þegar sex mínútur voru til leiksloka skoraði Pablo annað mark KR þegar hann stýrði fyrirgjöf Ægis Jarls Jónassonar í netið. Þremur fleiri fengu KR-ingar góð færi til að bæta við mörkum en það tókst ekki. Heimamönnum voru mislagðar fætur í færunum sínum og Þórður varði nokkrum sinnum vel. Fleiri urðu mörkin ekki og KR-ingar fögnuðu sigri í miklum og eftirminnilegum átakaleik. Af hverju vann KR? Sannast sagna spilaði KR frekar illa í þessum leik eins og Rúnar Kristinsson viðurkenndi eftir leik. En KR-ingar gerðu færri mistök og héldu haus á meðan Víkingar létu mótlætið fara í taugarnar á sér. Hverjir stóðu upp úr? Markaskorararnir Kristján Flóki og Pablo stóðu upp úr í frekar slöku KR-liði. Atli lék einnig vel og lagði upp fyrra markið. Þórður stóð fyrir sínu í marki Víkings þrátt fyrir nokkur ævintýri með boltann í fyrri hálfleik. Erlingur Agnarsson reyndi allt hvað hann gat og komst ágætlega frá leiknum. Hvað gekk illa? Hjá Víkingum að halda sér inni á vellinum. Þeir voru betri meðan það var jafnt í liðum og héldu sjó einum og jafnvel tveimur færri. En eftir þriðja rauða spjaldið var þetta búið. Eins og áður sagði voru KR-ingar ekki góðir í leiknum í kvöld og þurfa að gera miklu betur í næsta leik sem er gegn toppliði Blika. En þeir fengu stigin þrjú og geta ekki kvartað yfir niðurstöðinni. Hvað gerist næst? Víkingur á leik gegn Val í 5. umferð á miðvikudaginn. Þar verður liðið án þeirra Kára, Sölva og Halldórs Smára og áhugavert verður að sjá hverjir spila í miðri vörn Víkinga í þeim leik. Leik KR gegn Stjörnunni í 5. umferð var frestað vegna kórónuveirusmits í röðum Garðbæinga. Sunnudaginn 12. júlí sækir Víkingur HK heim. Degi síðar fær KR Breiðablik í heimsókn í stórleik 6. umferðar. Arnar: Rauða spjaldið á Sölva var grín Arnar Gunnlaugsson var afar undrandi á dómgæslunni á Meistaravöllum.vísir/daníel „Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Maður hefur verið svo lengi í þessu og ég hélt ég væri búinn að sjá allt en greinilega ekki. Þetta var mjög eftirminnilegur leikur á margan hátt,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir tapið fyrir KR í kvöld. Allir miðverðir Víkings sem byrjuðu leikinn, Kári Árnason, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson, fengu rauða spjaldið og Víkingar voru því átta inni á vellinum undir lokin. Arnar var ekki sáttur með rauðu spjöldin. „Hvað á ég að segja? Hver sem er getur séð að þetta voru ekki rauð spjöld,“ sagði Arnar en rauðu spjöldin má sjá hér fyrir neðan. „Fyrsta rauða spjaldið var ódýrt. Kristján Flóki [Finnbogason] tosaði í Kára. Spjaldið á Sölva var djók. Honum var greinilega hrint. Halli fór í 50-50 tæklingu. Hann var á mikilli ferð en þetta er ljúfasti maður í heimi og fór ekki í tæklinguna til að meiða hann. Þetta eru atvik sem þarf að vega og meta hverju sinni.“ Arnar var ekki sáttur með frammistöðu Helga Mikaels Jónassonar, dómara leiksins, og það einskorðaðist ekki bara við rauðu spjöldin. „Það voru fullt af öðrum vafaatriðum, eins og vítið sem við áttum að fá í fyrri hálfleik. Þetta var eins augljóst víti og þau geta verið,“ sagði Arnar. „Ellefu á móti ellefu var þetta flottur leikur hjá okkur og við áttum að vera búnir að skora 2-3 mörk áður en rauðu spjöldin fóru á loft.“ Arnar kvaðst ekki vera fúll út í þremenningana sem fengu rauðu spjöldin en þeir eru jafnframt reyndustu leikmenn Víkings. „Ég er alls ekki svekktur út í þá. Þetta eru svo miklir meistarar sem hafa gefið okkur svo mikið,“ sagði Arnar sem verður án þeirra Kára, Sölva og Halldórs Smára í leiknum gegn Val á miðvikudaginn. „Ég held ég sé enn skráður í Fram þannig ég get því miður ekki spilað,“ sagði Arnar léttur. „En við finnum einhverja. Við erum með unga og ferska stráka og það verður ekkert vandamál.“ Rúnar: Áttum ekki góðan dag Frammistaða KR gegn Víkingi var Rúnari Kristinssyni ekki að skapi.vísir/bára Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna í sigrinum á Víkingi í miklum átakaleik á Meistaravöllum í kvöld. Þrír Víkingar voru reknir af velli í leiknum. „Ég er bara ánægður með stigin þrjú. Mér fannst við ekki eiga góðan dag. Við vorum slakir í fyrri hálfleik þótt við værum einum fleiri og meira að segja tveimur fleiri vorum við ekki mikið betri. Við þurfum að lyfta okkar leik upp á hærra plan,“ sagði Rúnar. „En við erum með mjög agað lið og við sýndum það í dag. Og þess vegna unnum við leikinn.“ Þrátt fyrir að hafa ýjað að agaleysi Víkings vildi Rúnar ekki tjá sig mikið meira um það. „Þeir fengu þrjú rauð spjöld og öll réttilega að mínu mati. Ég held að það sé ekki nein spurning. Ég ætla ekki að fara ítarlega í hvert og eitt við fyrstu sýn voru þetta allt rauð spjöld,“ sagði þjálfarinn. Kristján Flóki Finnbogason kom KR á bragðið og skoraði þar með í öðrum leiknum í röð. Rúnar vildi þó fá enn meira frá framherjanum. „Ég er ánægður með hann hefur skorað í tveimur leikjum í röð en óánægður með að hann skildi ekki skora eitt til tvö mörk í viðbót. Við sýndum kæruleysi í færunum undir lokin,“ sagði Rúnar en eftir þriðja rauða spjald Víkinga fengu KR-ingar urmul góðra færa til að bæta við mörkum. „Ég er ósáttur með að við unnum bara 2-0 því við vorum þremur fleiri. Við áttum að skora fleiri mörk og bæta markatöluna því hún getur skipt máli.“ Pepsi Max-deild karla KR Víkingur Reykjavík
Víkingar fengu þrjú rauð spjöld þegar þeir töpuðu fyrir KR-ingum, 2-0, í leik Íslands- og bikarmeistaranna á Meistaravöllum í 4. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Kristján Flóki Finnbogason og Pablo Punyed skoruðu mörk KR. Allir þrír miðverðir Víkings sem byrjuðu leikinn voru reknir af velli. Kári Árnason fékk rautt spjald í fyrri hálfleik og í þeim seinni fuku Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson einnig af velli. KR-ingar spiluðu ekki vel í leiknum í kvöld en gerðu nógu mikið til að vinna. KR hefur unnið tvo leiki í röð og er á toppi deildarinnar ásamt Breiðabliki. Víkingur er í 8. sætinu með fimm stig. Kristján Flóki fékk ágætis færi strax á 3. mínútu en annars voru Víkingar sprækari í upphafi leiks. Ágúst Eðvald Hlynsson fékk besta færi gestanna en skaut yfir. Kaflaskil urðu 26. mínútu þegar Kári var rekinn af velli fyrir brot á Kristjáni Flóka sem var að sleppa í gegn. Víkingar vörðust vel það eftir lifði fyrri hálfleiks. Óskar Örn fékk reyndar gott færi skömmu eftir rauða spjaldið en Þórður Ingason, sem stóð í marki Víkings í fjarveru Ingvars Jónssonar, varði vel. Þórður tefldi oft á tæpasta vað með boltann en komst vel frá sínu og átti góðar markvörslur, sérstaklega undir lokin þegar Víkingar voru fáliðaðir. Staðan var markalaus í hálfleik og allt fram á 58. mínútu þegar Kristján Flóki braut ísinn. Atli Sigurjónsson átti þá fyrirgjöf frá hægri, og með hægri fæti, á Kristján Flóka sem tók boltann í fyrsta og kláraði færið með stæl. Víkingar urðu fyrir enn einu áfallinu á 74. mínútu þegar Sölvi Geir var rekinn af velli fyrir að slá Stefán Árna Geirsson. Gestirnir voru afar ósáttir við rauða spjaldið og töldu að Pablo hefði hrint Sölva Geir. Þrátt fyrir að vera tveimur færri gáfust Víkingar ekki upp og Óttar Magnús Karlsson fékk ágætis færi en skaut framhjá. Skömmu síðar fór þriðja rauða spjaldið á loft. Það fékk Halldór Smári fyrir harða tæklingu á Kennie Chopart sem þurfti að fara af velli. Þegar sex mínútur voru til leiksloka skoraði Pablo annað mark KR þegar hann stýrði fyrirgjöf Ægis Jarls Jónassonar í netið. Þremur fleiri fengu KR-ingar góð færi til að bæta við mörkum en það tókst ekki. Heimamönnum voru mislagðar fætur í færunum sínum og Þórður varði nokkrum sinnum vel. Fleiri urðu mörkin ekki og KR-ingar fögnuðu sigri í miklum og eftirminnilegum átakaleik. Af hverju vann KR? Sannast sagna spilaði KR frekar illa í þessum leik eins og Rúnar Kristinsson viðurkenndi eftir leik. En KR-ingar gerðu færri mistök og héldu haus á meðan Víkingar létu mótlætið fara í taugarnar á sér. Hverjir stóðu upp úr? Markaskorararnir Kristján Flóki og Pablo stóðu upp úr í frekar slöku KR-liði. Atli lék einnig vel og lagði upp fyrra markið. Þórður stóð fyrir sínu í marki Víkings þrátt fyrir nokkur ævintýri með boltann í fyrri hálfleik. Erlingur Agnarsson reyndi allt hvað hann gat og komst ágætlega frá leiknum. Hvað gekk illa? Hjá Víkingum að halda sér inni á vellinum. Þeir voru betri meðan það var jafnt í liðum og héldu sjó einum og jafnvel tveimur færri. En eftir þriðja rauða spjaldið var þetta búið. Eins og áður sagði voru KR-ingar ekki góðir í leiknum í kvöld og þurfa að gera miklu betur í næsta leik sem er gegn toppliði Blika. En þeir fengu stigin þrjú og geta ekki kvartað yfir niðurstöðinni. Hvað gerist næst? Víkingur á leik gegn Val í 5. umferð á miðvikudaginn. Þar verður liðið án þeirra Kára, Sölva og Halldórs Smára og áhugavert verður að sjá hverjir spila í miðri vörn Víkinga í þeim leik. Leik KR gegn Stjörnunni í 5. umferð var frestað vegna kórónuveirusmits í röðum Garðbæinga. Sunnudaginn 12. júlí sækir Víkingur HK heim. Degi síðar fær KR Breiðablik í heimsókn í stórleik 6. umferðar. Arnar: Rauða spjaldið á Sölva var grín Arnar Gunnlaugsson var afar undrandi á dómgæslunni á Meistaravöllum.vísir/daníel „Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Maður hefur verið svo lengi í þessu og ég hélt ég væri búinn að sjá allt en greinilega ekki. Þetta var mjög eftirminnilegur leikur á margan hátt,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir tapið fyrir KR í kvöld. Allir miðverðir Víkings sem byrjuðu leikinn, Kári Árnason, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson, fengu rauða spjaldið og Víkingar voru því átta inni á vellinum undir lokin. Arnar var ekki sáttur með rauðu spjöldin. „Hvað á ég að segja? Hver sem er getur séð að þetta voru ekki rauð spjöld,“ sagði Arnar en rauðu spjöldin má sjá hér fyrir neðan. „Fyrsta rauða spjaldið var ódýrt. Kristján Flóki [Finnbogason] tosaði í Kára. Spjaldið á Sölva var djók. Honum var greinilega hrint. Halli fór í 50-50 tæklingu. Hann var á mikilli ferð en þetta er ljúfasti maður í heimi og fór ekki í tæklinguna til að meiða hann. Þetta eru atvik sem þarf að vega og meta hverju sinni.“ Arnar var ekki sáttur með frammistöðu Helga Mikaels Jónassonar, dómara leiksins, og það einskorðaðist ekki bara við rauðu spjöldin. „Það voru fullt af öðrum vafaatriðum, eins og vítið sem við áttum að fá í fyrri hálfleik. Þetta var eins augljóst víti og þau geta verið,“ sagði Arnar. „Ellefu á móti ellefu var þetta flottur leikur hjá okkur og við áttum að vera búnir að skora 2-3 mörk áður en rauðu spjöldin fóru á loft.“ Arnar kvaðst ekki vera fúll út í þremenningana sem fengu rauðu spjöldin en þeir eru jafnframt reyndustu leikmenn Víkings. „Ég er alls ekki svekktur út í þá. Þetta eru svo miklir meistarar sem hafa gefið okkur svo mikið,“ sagði Arnar sem verður án þeirra Kára, Sölva og Halldórs Smára í leiknum gegn Val á miðvikudaginn. „Ég held ég sé enn skráður í Fram þannig ég get því miður ekki spilað,“ sagði Arnar léttur. „En við finnum einhverja. Við erum með unga og ferska stráka og það verður ekkert vandamál.“ Rúnar: Áttum ekki góðan dag Frammistaða KR gegn Víkingi var Rúnari Kristinssyni ekki að skapi.vísir/bára Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna í sigrinum á Víkingi í miklum átakaleik á Meistaravöllum í kvöld. Þrír Víkingar voru reknir af velli í leiknum. „Ég er bara ánægður með stigin þrjú. Mér fannst við ekki eiga góðan dag. Við vorum slakir í fyrri hálfleik þótt við værum einum fleiri og meira að segja tveimur fleiri vorum við ekki mikið betri. Við þurfum að lyfta okkar leik upp á hærra plan,“ sagði Rúnar. „En við erum með mjög agað lið og við sýndum það í dag. Og þess vegna unnum við leikinn.“ Þrátt fyrir að hafa ýjað að agaleysi Víkings vildi Rúnar ekki tjá sig mikið meira um það. „Þeir fengu þrjú rauð spjöld og öll réttilega að mínu mati. Ég held að það sé ekki nein spurning. Ég ætla ekki að fara ítarlega í hvert og eitt við fyrstu sýn voru þetta allt rauð spjöld,“ sagði þjálfarinn. Kristján Flóki Finnbogason kom KR á bragðið og skoraði þar með í öðrum leiknum í röð. Rúnar vildi þó fá enn meira frá framherjanum. „Ég er ánægður með hann hefur skorað í tveimur leikjum í röð en óánægður með að hann skildi ekki skora eitt til tvö mörk í viðbót. Við sýndum kæruleysi í færunum undir lokin,“ sagði Rúnar en eftir þriðja rauða spjald Víkinga fengu KR-ingar urmul góðra færa til að bæta við mörkum. „Ég er ósáttur með að við unnum bara 2-0 því við vorum þremur fleiri. Við áttum að skora fleiri mörk og bæta markatöluna því hún getur skipt máli.“