Lýðræðissinnar í Hong Kong eru sagðir íhuga að koma á fót óopinberu útlagaþingi utan borgarinnar til þess að tala máli lýðræðis og senda kínverskum stjórnvöldum skilaboðum eftir að umdeild öryggislög voru samþykkt. Varaforseti Bandaríkjanna segir kínversk stjórnvöld hafa brotið alþjóðasamninga með lögunum.
Nýju öryggislögin eru sögð þrengja mjög að lýðræði sem íbúum Hong Kong var lofað þegar Bretar skiluðu nýlendu sinni til Kína árið 1997. Með þeim verður andóf og undirróður gegn stjórnvöldum gerður saknæmur að viðlögðu lífstíðarfangelsi. Öryggissveitir af meginlandi Kína fá jafnframt heimild til að athafna sig í Hong Kong óhindrað.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sagði í sjónvarpsviðtali í dag telja að lögin væru brot á alþjóðasáttmálum og að þau væru óásættanleg fyrir alla þá sem unna frelsi í heiminum. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti refsiaðgerðir sem tengjast aðgerðum Kínverja gegn Hong Kong í gær. Með lögunum verður bönkum sem stunda viðskipti við kínverska embættismenn refsað.
Bresk stjórnvöld hafa einnig lýst þungum áhyggjum af lögunum og áhrifum þeirra á frelsi Hong Kong-búa. Boris Johnson, forsætisráðherra, telur þau skýrt og alvarlegt brot á samkomulagi Bretlands og Kína um Hong Kong frá árinu 1985. Með því áttu borgarbúar að njóta tiltekinna borgararéttinda í að minnsta kosti fimmtíu ár sem sérstakt stjórnsýslusvæði frá 1997. Bretar hafa nú boðið allt að þremur milljónum Hong Kong-búa landvistarleyfi og síðar ríkisborgararéttar.
Aðgerðasinnar í Hong Kong skoða nú möguleikann á útlagaþingi til þess að halda málstað sínum á lofti.
„Skuggaþing getur sent mjög skýr skilaboð til Beijing og yfirvalda í Hong Kong um að lýðræðið verði ekki upp á miskunn Beijing komið,“ segir Simon Cheng, baráttumaður fyrir lýðræði í Hong Kong, við Reuters-fréttastofuna.
Hugmyndin sé enn á frumstigi og ekki liggi fyrir hvar það yrði staðsett. Cheng segist hafa flúið borgríkið eftir að kínverska leynilögreglan barði hann og pyntaði. Hann hlaut í framhaldinu hæli í Bretlandi.
„Við ættum að standa með íbúum Hong Kong og styðja þá sem eru eftir í Hong Kong,“ segir Cheng.