Erlent

Sam­verka­kona Ep­stein hand­tekin af FBI

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ghislaine Maxwell, bresk samverkakona Jeffrey Epstein.
Ghislaine Maxwell, bresk samverkakona Jeffrey Epstein. Getty/Jared Siskin

Ghislaine Maxwell, bresk samverkakona og fyrrverandi kærasta Jeffrey Epstein, auðkýfings sem sakaður var um að misnota og selja fjölda stúlkna mansali, hefur verið handtekin af Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI.

Hún var sögð handtekin í New Hampshire sökuð um aðild að brotum Epsteins og kemur hún fyrir alríkisdóm innan skamms. Hún hefur áður neitað allri aðild eða þekkingu um brotin sem Epstein er sakaður um.

Epstein lést í fangelsi í New York þann 10. ágúst síðastliðinn á meðan hann beið þess að koma fyrir dóm vegna ákæranna um kynferðisbrot og mansal. Hann var handtekinn í fyrra í New York sakaður um að hafa staðið á bak við mansalshring. Sumar þeirra sem sakað hafa Epstein og Maxwell um mansal og kynlífsþrælkun voru unglingar þegar brotin áttu sér stað og þær yngstu aðeins 14 ára gamlar. Dauði Epstein var úrskurðaður sjálfsvíg.

Konurnar sem sakað hafa Epstein um misnotkun segjast hafa kynnst honum í gegnum Maxwell. Þær hafi í kjölfarið verið kynferðislega misnotaðar af honum og vinum hans. Virginia Giuffre, ein kvennanna, sakar Maxwell um að hafa boðið henni vinnu við að nudda Epstein, þegar hún var aðeins fimmtán ára gömul.

Fyrr á þessu ári kærði Maxwell bú Epstein og krafðist hún þess að fá bætur fyrir þann kostnað sem fylgt hefur málinu, bæði vegna lagalegrar aðstoðar og við það að tryggja öryggi hennar. Hún segist reglulega fá hótanir og óttist hún um öryggi sitt og líf.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×