Unnið hafði verið að yfirlögn á kaflanum á Vesturlandsvegi norðan Grundarhverfis, þar sem banaslysið varð á sunnudaginn, síðastliðið fimmtudagskvöld. Eftirlitsmaður hafði metið aðstæður að lokinni yfirlögn þannig að hætta væri á hálku og tekið ákvörðun um að vara við hálku með merkingum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni þar sem fjallað er um banaslysið þar sem tveir fórust eftir árekstur bifhjóls og húsbíls.
„Mikill hiti á sunnudag og úrhellis rigning leiðir síðan til þess að þessi kafli verður enn hálli en ella og eru aðstæður þannig mjög slæmar þegar hið hörmulega slys verður,“ segir í tilkynningunni.
Athuga hvort yfirlögn hafi staðist útboðsskilmála
Vegagerðin segir að farið sé yfir málið þar sem farið ofan í þessa einstöku framkvæmd með þeim verktökum sem að þeim komu. Að auki verði verkferlar skoðaðir og breytingar gerðar til þess að freista þess að svona atburður endurtaki sig ekki.
„Starfsfólk Vegagerðarinnar er slegið yfir þessu slysi og hugur okkar er með ættingjum og aðstandendum þeirra sem létust í slysinu. Umferðaröryggi er eitt það mikilvægasta í öllum störfum Vegagerðarinnar,“ segir í tilkynningunni.
Líkt og fram kom í samtali Vísis við Bergþóru Þorkelsdóttur vegamálastjóra í hádeginu þá er nú farið yfir hvort að verklag við yfirlögn hafi staðist útboðsskilmála og hvort Vegagerðin ásamt verktökum og eftirliti skuli endurskoða og efla enn frekar öryggiskröfur við framkvæmdir að þessu tagi.
Hálkumæla kaflann
„Unnið er að því að hálkumæla umræddan kafla ásamt öðrum köflum á höfuðborgarsvæðinu sem grunur er um að séu einnig og hálir. Að því loknu verða þeir sandaðir. Hraði á þessum köflum hefur verið tekinn niður. Vegagerðin biður vegfarendur um að aka varlega sérstaklega í ljósi þess að spáð er háu hitastigi og einnig má búast við rigningu sem eykur möguleika á varasömu ástandi nýlagðs malbiks.
Enn á ný, Vegagerðin harmar þetta slys og starfsfólk sendir aðstandendum hinna látnu okkar dýpstu samúð,“ segir í tilkynningunni.