„Þetta var löng nótt en í rauninni komu úrslitin ansi snemma í ljós,“ segir Guðmundur Franklín Jónsson, flissandi. Hann var í beinni útsendingu á Facebooksíðu sinni í morgun þar sem hann fór yfir kosningabaráttunna og hverju framboð hans hefði áorkað.
Guðmundur sagðist ánægður með kosninguna, þó hann hafi auðvitað viljað fá meira fylgi. Hann fékk 12.797 atkvæði eða 7,8 prósent.
„Það sem ég vildi gera fyrst og fremst með þessu framboði var að vekja fólk til umhugsunar um hvað er í gangi í þessu þjóðfélagi,“ sagði Guðmundur í ávarpi sínu. Hann sagðist sömuleiðis hafa viljað passa upp á það að hér væru haldnar kosningar á fjögurra ára fresti.
„Þetta á ekki að vera á færibandi og menn eiga að þurfa að hafa fyrir því og menn eiga að þurfa að svara fyrir síðastliðin fjögur ár eða þann tíma sem fólk hefur verið í embætti.“
Guðmundur sagðist klár á því að hann og stuðningsmenn hans hefðu opnað á ýmis mál og að Guðni myndi héðan í frá hugsa sig um áður en hann skrifar undir lög. Sömuleiðis hefðu þau haft töluverð áhrif á stjórnvöld, samkvæmt Guðmundi. Þau myndu ekki svo glatt selja ríkisfyrirtæki eins og Landsvirkjun.
„Það er allavega eitthvað unnið með þessu framboði mínu,“ sagði Guðmundur. Þrettán þúsund manns hafi vaknað. Þetta væri einungis byrjunin því hann og stuðningsmenn hans eigi eftir að „vekja“ fleiri.
Guðmundur þakkaði öllum þeim sem komu að kosningunum fyrir þeirra störf og þeim sem aðstoðuðu hann.
Hann hélt áfram að tala um hverju framboð hans hefði áorkað og ræddi um þjóðaratkvæðagreiðslur. Nú myndi fylking hans og hvers sem tæki við af honum eiga auðveldara með að safna undirskriftum varðandi hin ýmsu málefni. Guðmundur sagði að Guðni Th. Jóhannesson, sem fékk 150.913 atkvæði eða 92,2 prósent, hafi gefið út að hann myndi setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu ef tækist að safna 50 þúsund undirskriftum.
„Hann ætlar sem sagt ekki að fara eftir stjórnarskránni. Hann ætlar að fara eftir sínu eigin hyggjuviti og biðja um 50 þúsund.“
Guðmundur sagði að það yrði ekkert vandamál ef selja ætti Landsvirkjun eða bankana.
Undir lok Facebook-ávarpsins segist Guðmundur hafa verið að etja kappi við ofurefli. Allir fjölmiðlar hafi verið á móti framboði hans en hann hefði ekki búist við öðru. Öll „kosningamaskínan“, „fjórflokkurinn“ og „ESB-dótið“, hafi sömuleiðis verið á móti framboði hans.
„Það er virkileg hræðsla í kerfinu og fyrir þá sem vilja stoppa ESB inngöngu er kannski vert að hugsa um að fyrst þau voru svona mikið á móti þessu, þá erum við kannski nær því að ganga þarna inn. Einhverra hluta vegna. Ég veit það ekki,“ sagði Guðmundur.
Facebook-ávarp Guðmundar má sjá hér að neðan. Þar fór hann um víðan völl og talaði um efnahagsmál, iðnað, ferðaþjónustu og sérstöðu Íslands, svo eitthvað sé nefnt.