Innlent

Bjóða út umhverfismat og hönnun vegna breikkunar Reykjanesbrautar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vegarkaflinn sem nú fer í umhverfismat og hönnun liggur meðfram Straumsvík.
Vegarkaflinn sem nú fer í umhverfismat og hönnun liggur meðfram Straumsvík. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Vegagerðin hefur boðið út umhverfismat og hönnun vegna breikkunar 5,6 kílómetra langs kafla Reykjanesbrautar milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns. Þetta yrði síðasti kaflinn á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur til að breikka úr tveimur akreinum í fjórar með aðskildum akstursstefnum.

Í útboðsauglýsingu Vegagerðarinnar segir að á vegkaflanum skuli breikka núverandi Reykjanesbraut til suðurs, hanna ein mislæg gatnamót, ein undirgöng fyrir gangandi og hjólandi umferð, vegtengingu að Straumi og vegtengingu að skolpdælustöð austan Straumsvíkur.

Val bjóðanda fari fram á grundvelli hæfismats og verðs. Beri bjóðanda að leggja fram tilboð sitt í tveimur hlutum, það er upplýsingar um hæfi bjóðanda og verðtilboð. Verkhönnun skuli lokið 1. febrúar 2022.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilboðsfrestur rennur út 22. júlí.

Samkvæmt breytingartillögu stjórnarmeirihlutans við samgönguáætlun, sem nú er til meðferðar Alþingis, er gert ráð fyrir að framkvæmdin færist yfir á fyrsta tímabil áætlunarinnar 2020-2024 með þriggja milljarða króna framlagi en verkið var áður tímasett á öðru tímabili 2025-2029.

„Undirbúningur hefjist strax og framkvæmdir hefjist um leið og vinnu við hönnun og skipulagi lýkur,“ segir í nefndaráliti meirihlutans.

„Eftir að samgönguáætlun var lögð fyrir Alþingi í desember 2019 náðist samkomulag um breytta legu vegarins, sem lækkar kostnað við vegkaflann, en samkvæmt framlagðri áætlun eiga framkvæmdir ekki að hefjast fyrr en á 2. tímabili. Með viðbótarfjármagni fjárfestingarátaksins er framkvæmdinni tryggt fjármagn fyrir árið 2020 þannig að unnt sé að hefja undirbúning verksins,“ segir í nefndarálitinu.

Fjallað var um verkefnið í frétt Stöðvar 2 fyrir tveimur mánuðum:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×