Sport

Fjallið fékk hand­bolta­mar­k­vörðinn Björg­vin Pál til að hjálpa sér að anda rétt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Björgvin Páll hjálpaði Fjallinu að anda rétt.
Björgvin Páll hjálpaði Fjallinu að anda rétt. mynd/skjáskot/youtube

Fjallið, Hafþór Júlíus Björnsson, heldur áfram að birta myndbönd af sér og æfingum sínum á YouTube-síðu sína og í gær sýndi hann fólki hvernig hann æfði öndun sína með landsliðsmarkverðinum Björgvini Páli Gústavssyni.

Björgvin Páll var mættur í ræktina hjá Hafþóri Júlíusi í Kópavoginum en Björgvin Páll er einnig öndunar leiðbeinandi ásamt því að vera landsliðsmarkvörður og markvörður Hauka í Olís-deild karla.

Hafþór Júlíus lyfti og lyfti á meðan Björgvin Páll hjálpaði honum að anda rétt í lyftunum en Hafþór Júlíus er að búa sig undir sterkasti maður Íslands sem fer fram síðar í sumar. Það verður í tíunda sinn sem hann keppir á því móti.

„Ég er alltaf að reyna finna litla hluti sem ég get bætt svo ég verði betri íþróttamaður. Því er ég þakklátur fyrir að Björgvin noti sinn tíma til þess að hjálpa mér,“ sagði Hafþór Júlíus.

Það er ekki bara sterkasti maður Íslands sem er á döfinni hjá Fjallinu heldur ætlar hann einnig að berjast við Eddie Hall í Las Vegas á næsta ári. Þeir hafa verið duglegir að skjóta á hvorn annan að undanförnu og verður fróðlegt að sjá viðureign þeirra á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×