Heldur dró úr virkni skjálftahrinunnar fyrir norðan í nótt en hún jókst skyndilega í morgun með skjálfta sem mældist 3,3 að stærð. Jarðskjálftarhrinan á Tjörnesbrotabeltinu á Norðurlandi hófst 19. júní.
Stærsti skjálftinn sem mælst hefur í hrinunni var á sunnudagskvöld en sá reyndist vera 5,8 að stærð. Skjálftahrinan tengist ekki eldvirkni heldur flekahreyfingum að sögn Einars Hjörleifssonar náttúruvársérfræðings.
„Þrjú hundruð skjálftar mældust þar í nótt, allir undir þremur að stærð en frá klukkan sjö í morgun virðist sem virknin hafi aukist lítillega aftur. Einn skjálftanna mældist 3,3 að stærð klukkan tíu og svo mældist annar 2,9 að stærð klukkan 8.27. Fjölmargir litlir skjálftar hafa fylgt þeim á eftir.“