Erlent

Vučić herðir tökin

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Forsetinn ávarpaði flokksmenn í nótt og var, eins og gefur að skilja, frekar sáttur.
Forsetinn ávarpaði flokksmenn í nótt og var, eins og gefur að skilja, frekar sáttur. EPA/Andrej Cucic

Engin raunveruleg stjórnarandstaða verður á serbneska þinginu eftir að Serbneski framfaraflokkurinn hirti stóran meirihluta þingsæta í kosningum gærdagsins. 

Framfaraflokkur Aleksandars Vučić forseta, fékk 63 prósent atkvæða og því 189 þingsæti af 250. Samstarfsflokkarnir og aðrir flokkar íhaldsmanna hirtu restina. Kjörsókn var tæp 48 prósent og hefur aldrei verið minni.

Stjórnarandstöðuflokkarnir sniðgengu kosningarnar vegna áhyggja af kórónuveirufaraldrinum og vegna þess að þeim þótti meintir einræðistilburðir Vucic-stjórnarinnar útiloka að kosningarnar yrðu sanngjarnar.

„Í dag höfnuðu Serbar ógnarstjórn Aleksandars Vučić og þeirri vitleysu sem við höfum þurft að horfa upp á undanfarin ár. Sniðgangan gekk upp og afhjúpaði þessa ógnarstjórn. Nú sjá allir hvað er í gangi í Serbíu,“ sagði Dragan Ðilas, leiðtogi Frelsis- og réttlætisflokksins, sem bauð ekki fram.

Niðurstöðurnar þýða að Vučić, sem var áður upplýsingamálaráðherra harðstjórans Slobodans Milosevic, og Framfaraflokkurinn hafa nú öll völd í landinu. Forsetinn var því ansi kátur í nótt:

„Við höfum unnið alls staðar, jafnvel þar sem við töpuðum áður. Við unnum í útlöndum, þar sem við höfum aldrei áður unnið.“

Í skýrslu bandarísku hugveitunnar Freedom House frá því í maí var fjallað um þróun lýðræðis í Evrópu. Þar komust skýrsluhöfundar að þeirri niðurstöðu að Serbía væri ekki lengur lýðræðisríki, heldur á milli einræðis og lýðræðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×