Íslenski boltinn

Segir að Hilmar Árni hafi ekki æft auka­spyrnurnar síðan 2016

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Páll og Hjörvar Hafliðason í Pepsi Max-stúkunni á mánudagskvöldið.
Rúnar Páll og Hjörvar Hafliðason í Pepsi Max-stúkunni á mánudagskvöldið. vísir/s2s

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, segir að hann hafi ekki séð Hilmar Árna Halldórsson æfa aukaspyrnur í nokkur ár en þrátt fyrir það hefur hann raðað inn mörkum úr aukaspyrnum.

Hilmar Árni skoraði einmitt eitt marka Stjörnunnar í 2-1 sigrinum á Fylki á mánudaginn í 1. umferð Pepsi Max-deildar karla en hann skoraði úr frábærri aukaspyrnu.

Klippa: Stjarnan - Fylkir 1-1

Rúnar Páll hefur ekki, þrátt fyrir frábær tímabil Hilmars Árna með Stjörnunni undanfarin ár, óttast það að missa hann frá félaginu.

„Honum líður gríðarlega vel í Garðabænum og hann er búinn að standa sig hrikalega vel. Vonandi gerir það hann áfram í sumar. Þetta er stórkostlegt mark og hann sýnir það að hann getur alltaf gert þetta þó að ártalið á Pepsi Max-deildinni breytist, þá heldur hann áfram að gera þetta. Það er æðislegt,“ sagði Rúnar Páll. Hann segir mikilvægt að Hilmar Árni haldi áfram að skila mörkum.

„Við þurfum á því að halda. Við þurfum, eins og flest önnur lið, að eiga leikmenn sem skora mörk. Leikir vinnast ekki öðruvísi en umfram allt þurfum við að spila agaðan varnarleik. Við skorum yfirleitt mörk.“

Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur, spurði Rúnar Pál hvort að Breiðhyltingurinn væri að eyða löngum stundum á æfingavellinum að æfa spyrnurnar.

„Ég hef sjaldan séð hann æfa aukaspyrnur. Hann æfði þetta einhvern tímann 2016 eða eitthvað. Ég veit ekki að hann hafi æft þetta eitthvað síðan,“ sagði Rúnar Páll.

Klippa: Pepsi Max-stúkan - Rúnar Páll um Hilmar Árna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×